Þingvallavatn
Þingvallavatn. Mynd Heimir Óskarsson.

Þingvallavatn verður opnað á fimmtudaginn 1.apríl, á Skírdag, og er það breyting frá fyrri árum. Til þessa hefur verið miðað við 15.apríl.

Þingvallavatnið hefur verið einhver magnaðasta veiðistöð veraldar síðustu árin, eftir að ísaldarurriðinn fór að ná sér á strik svo um munaði. Má segja að hann sé eitt af furðum veraldar í lífríkinu. VoV rakst á afar virkan veiðikappa sem var að fylla á boxinn á flugubar Veiðiflugna á Langholtsvegi, þar var á ferðinni Jóhann Rafnsson Hafnfjörð, sem að öllu jöfnu er umsjónaður við Víðidalsá og Fitjá. Hann veiðir mikið á svokölluðum ION svæðum í Þingvallavatni, á vorin,  sem eru Þorsteinsvík og Ölfusvatnsvík. „Veiðifélag Þingvallavatns ákvað það á fundi fyrir nokkru að færa opnunina fram. Ég veit ekki af hverju, kannski vegna þess að veturinn hefur verið mildur. En ég verð í opnuninni og er mjög spenntur að sjá hvernig til tekst að byrja fyrr en venjulega,“ sagði Jóhann.

Auk „ION“-svæðanna ber jafnan mest á svæði Fish Partner í suðurenda vatnsins, sérstaklega Geldingalækjarós og svo gamli góði Þjóðgarðurinn.