Gríðarlegir drekar í „Dalnum“

Andrés Magnússon með óhemjuflott urriðaeintak, en hann, ásamt félaga sínum hafði á þessum tímapunkti landað 10 urriðum og var meðallengd þeirra 65,8 cm. Einn þeirra er einnig á neðri myndinni.

Gríðarlega öflug byrjun hefur verið á urriðasvæðinu í Mývatnssveit, en veiði í „Dalnum,“ þ.e.a.s. í Laxárdal hefur einnig farið vel af stað. Að venju veiðast þar færri fiskar heldur en í „Mývó“, en á móti kemur að meðalstærðin er umtalsvert meiri og nú í byrjun vertíðar hafa komið allt að 70 cm tröll.

Glæsilegur bolti dreginn í „Dalnum“.

Bjarni Höskuldsson sem hefur góðar gætur á „Dalnum“ greinir frá þessu í færslu á FB og birtist máli sínu til stuðnings tvær myndir þar sem veiðimenn hampa 68 og 70 cm urriðum. „Gaman hvað eru að veiðast stórir fiskar í Dalnum núna,“ segir Bjarni. En á það má benda að þessi þróun hefur verið síðustu ár og þeir stærstu alltaf að stækka og stækka. Eru nú komnir í 70 sentimetrana. Þessu þakka menn því að í Dalnum er öllum fiski sleppt. Vitað er að urriði getur orðið býsna gamall og býsna stór fái hann til þess tækifæri, en fróðlegt verður að sjá hvort að þessir höfðingjar ná enn meiri stærð, eða hvort að þeir hafa náð sínum hæsta aldrei og yngri árgangar farið að taka við keflinu. Hvað sem því líður þá eru þetta feikilega flottir urriðar, eins og sjá má á myndunum sem við leyfðum okkkur að ræna af FB Bjarna.