Allt að gerast hjá SVFR

SVFR, sumarhátíð
Frá sumarhátíð SVFR í fyrra.

Það má segja að það sé allt að gerast hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur þessa komandi helgi, byrjandi reyndar á morgun, föstudag. Það er ekki að undra að margt sé í gangi, því að félagið er áttrætt frá og með morgundeginum. Þá hefur verið gengið frá ráðningu nýs framkvæmdastjóra.

Byrjum á morgun, á 80 ára afmælisdegi SVFR. Þá verður afmælishátíð í „Dalnum“, þ.e.a.s. við höfuðstöðvar félagsins í Elliðaárdal. Hátíðin stendur frá 17 til 19. Hér fer á eftir dagskráin

Ávarp formanns

Afmælisterta

Afmælisflugan kynnt og boðin til sölu ásamt öðrum afmælisvarningi

Jóhannes Sturlaugsson sýnir seiði og hvernig rafveiðum er háttað

Happadrætti – allir gestir fá einn miða og eiga möguleika á að vinna veiðileyfi

Kastsýning

Gengið meðfram Elliðaánum

Myndasýning

Hoppukastali fyrir börnin

Grillaðar pylsur

Á laugardagskvöld verður árshátíð félagsins endurvakin eftir margra ára hlé og verður að sjálfsögðu haldin í Súlnasal þaðan sem að margir eiga góðar minningar frá fyrri árshátíðum.

Sigurþór Gunnlaugsson
Sigurþór Gunnlaugsson, nýráðinn framkvæmdastjóri SVFR.

Og þá að nýjum framkvæmdastjóra. Sigurþór Gunnlaugsson, viðskiptafræðingur, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri SVFR. Starfið var auglýst laust til umsóknar fyrir nokkrum vikum, þegar ljóst var að Ari Hermóður Jafetsson ætlaði að láta af störfum með vorinu. Á fimmta tug umsókna bárust um starfið og í hópi umsækjenda voru margir hæfir kandidatar.

Sigurþór er viðskiptafræðimenntaður og með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur mikla reynslu af rekstri, verkferla- og fjárhagsáætlanagerð og kostnaðareftirliti. Hann var markaðsstjóri Kringlunnar og síðar stjórnandi hjá Air Atlanta Icelandic, m.a. stöðvarstjóri í Bretlandi, Indlandi og Sádi Arabíu, yfirmaður á flugrekstrarsviði, útstöðva og ferðaþjónustu, eins og segir á vefsíðu SVFR, en meira má um þetta allt saman lesa á www.svfr.is