Umræðan um sjókvíaeldi á norskættuðum eldislaxi hefur náð nýjum hæðum síðustu vikurnar. Einar Lúðvíksson umsjónarmaður Eystri Rangár og leigutaki Þverár, Affalls og Tungufljóts segir umræðuna þó vera á villigötum. Ekki sé minnst einu orði á einn veigamesta þáttinn…

„Mér finnst umræðan vera á svolitlum villigötum það er t.d. ekki minnst á það að það eru ekki til seiðaeldisstöðvar í landinu til að framleiða þessi seiði sem að á að setja í þessar kvíar. Það sem að er í gangi núna er kapphlaup um framleiðsluheimildir í laxi í Íslensku fjörðunum,“ sagði Einar við VoV og hélt áfram:

Staðan er þannig í dag að; Ísþór sem að Fiskeldi Austfjarða og Arnarlax/Fjarðalax eiga saman framleiða 3 milljónir laxaseiða og Gileyri sem að sömu aðilar eiga framleiða milljón laxaseiði.

Fiskalón/Vatnalíf sem að Laxar eiga framleiða kannski milljón laxaseiði nú í vor. Þessi stöð hefur verið endurbyggð og þetta er eina viðbótin við seiðaeldisstöðvar í 25 ár hér á landi. Flotta Dýrfiskstöðin sem að keyrir á endurnýtingu hefur ekki enn þá framleitt eitt einasta lifandi laxaseiði í sjó en gerir það kannski í framtíðinni.

Þetta eru samtals 5 milljónir seiða sem að þýða 20 þúsund tonn á ári í laxeldi í sjó en ekki þessi 200 þúsund tonn sem að verið er að tala um. Til þess að gera það þá þarf að 10 falda getu í laxaseiðaeldi hér á landi. Mér finnst því umræðan um fiskeldið vitlaus því það er bara verið að tala um svipað eldi og hefur verið seinustu árin eða þangað til að fleiri seiðaeldisstöðvar eru byggðar. Það sem að skiptir máli er að fá lokun á ný svæði þannig að kvíaeldið fari ekki á fleiri svæði en það er í dag eða á Suðurströndina, Eyjafjörð og Öxarfjörð.“