Vatnaveiðin: Frábær veiði og stórir fiskar!

Elliðavatn, Guðjón Hlöðversson, Veiðikortið
Guðjón Hlöðversson með þann stóra úr Elliðavatni, 70 cm! Myndin er frá vef Veiðikortsins.

Veiðin snýst ekki bara um ísaldarurriða í Þingvallavatni og sjóbirtingsám í Vestur Skaftafellssýslu heldur hefur vatnaveiði víða verið virkilega góð og stórir fiskar veiðst, m.a. einn mögulegur metfiskur í Elliðavatni sem opnaði 25.apríl

Skv upplýsingum frá Veiðikortinu þá var vel mætt við Elliðavatn þann 25.apríl s.l. og veiddist vel. Meðal annars veiddi Guðjón Hlöðversson urriða sem var 70 cm og áætlaður á bilinu 8 til 10 pund. Ekki er víst að stærri urriði hafi fengist í vatninu en ef einhver býr yfir slíkum upplýsingum væri fengur að fá skilaboð um það. Síðustu árin hafa urriðar farið stækkandi í vatninu, eða allar götur frá því að hann fór að fjölga sér á kostnað fækkunar hjá bleikjunni. Fleiri stórir veiddust fyrsta daginn, allt að 52 cm. Þá veiddist einnig nokkuð af bleikju og meðal annars ein rígvæn, 57 cm, sem tók spón.

Þá greinir Veiðikortið einnig frá því að Miroslav nokkur Saprina hefði gert góðan túr í Kleifarvatnið. Hann var greinilega í stórfiskahugleiðingum því að agnið var 28 gramma Tóbí! Og Tóbías gamli skilaði sínu, 86 cm, 18 punda urriða!

Og að Þingvallavatni, fréttir þaðan hafa einkennst af stórveiði- og stórfiskasögum af helstu svæðunum í sunnanverðu vatninu, en það gleymist stundum að Veiðikortshafar geta farið í Þjóðgarðinn og þar er líka fullt af risavöxnum ísaldartröllum. Þar hafa margir veitt vel í vor, enginn þó betur en hinn pólski stórveiðimaður Cezary Fijaalkowski sem hefur veitt á þriðja tug urriða í Þjóðgarðinum í vor, marga stóra, þá stærsta 18 og 20 punda. Var sá stærri 90 cm langur.

Nú er um að gera fyrir lesendur að fara inn á www.veidikortid.is og skoða nánar, en þar er að finna myndir af öllum þessum stórfiskum.