Urriðaveiðin í Þingvallavatni hefur farið af stað með miklum látum að þessu sinni. Mikil veiði þó að veðrið hafi ekki verið að hjálpa til. Í gærkvöldi kom sá stærsti til þessa á land, 105 cm dreki, með 55 cm ummál. Má alveg reikna með að hann hafi ekki verið léttari en 25 pund, eflaust eitthvað þar yfir.
Tröllið mikla veiddi Englendingur að nafni Ian Gordon og var hann við veiðar á veiðisvæðum ION hótelsins, nánar tiltekið í Ölfusvatnsvík. Aðal veiðistaðurinn þar er í ósi Ölfusvatnsár þar sem fiskinum var landað. Hafa verið að veiðast allt að 50-60 fiskar á dag bæði þar og í Þorsteinsvíkinni og mikið af þeim afla eru áætlaðir 4 til 6 kílóa fiskar, 8 til 12 pund!