Flestir í „veiðiheiminum“ þekkja Guðmund Atla Ásgeirsson fyrst og fremst sem veiðileyfasala, leiðsögumann veiðimanna og veiðimann. Færri vita hins vegar að hann er lærður prentari og stundar nú að gera afritanir af laxfiskum samkvæmt fornri japanskri prentlist.

„Jújú, ég er lærður prentari með meiru, meira að segja ferðamálafræðingur þó að ég vinni fyrst og fremst við veiðimennskuna,“ segir Guðmundur Atli, en hann er leigutaki Laugardalsár við Djúp og Fossár í Þjórsárdal, auk þess sem hann fer með viðskiptavini sína um land allt í önnur svæði ef að svo ber undir. Hann heldur áfram: „En það er rétt að ég byrjaði fyrir einhverjum misserum að fikta við þessar afritanir og það hefur bara undið uppá sig. Útlendingar sem ég leiðsegi eru vitlausir í svona minjagripi og það spyrst út í þeirra hópi. Íslendingar eru líka farnir að spyrja mikið um þetta,“ segir Guðmundur Atli í samtali við Veiðislóð. Hann hefur orðið mikið að gera í þessu nýja stússi sínu.

Hvað er hér á ferðinni, spyr Veiðislóð og vísar í myndir sem birtast með þessum pistli þar sem geur að líta grófprentaða fiskímynd á ljósum grunni. „Þetta er ævagömul japönsk prentlist sem heitir Gyotaku. Ég nota pappír, það getur verið ýmiskonar pappír, frá venjulegum pappír yfir í japanskan hríspappír. Þetta er eiginlega afrit af fiski og kemur út sem smá röff, ekki of fullkomið eins og maður væri að horfa á uppstoppaðan fisk.“
Þetta fylgir tæplega „veiða-sleppa“ hugsjóninni?
„Nei, ég get að sjálfsöghðu ekki meðhöndlað lifandi fisk með þessum hætti. Ég þarf dauða fiska og eðli málsins samkvæmt er ég þá ekki að vinna með þá stóru sem eru sleppiskyldir. En það má víða drepa einhverja fiska og svona afrit getur verið mjög skemmtilegt þó að það sé ekki sá stóri sem veiddist.“

Og hvað er það sem fer þarna fram?
„Ég þarf að fá fisk. Hann má vera nýveiddur, kældur eða frystur, það skiptir ekki máli. Fiskurinn er vandlega þrifinn og skorinn niður miðjuna við hrygginn. Sporðurinn er þó heill. Síðan mála ég pappírinn svartan og nudda pappírinn, málningarmegin, inn í fiskinn þannig að hann afritast á pappírinn. Best er að gera þetta nokkrum sinnum, því þó að fiskurinn sé vel þrifinn þá er alltaf á honum eitthvert slím og það þurrkast upp við ítrekaðar meðferðir með pappírnum. Þá fer blekið betur inn og uggar og hreistur fara að að skila sér í afritið og það verður æ flottara.“

Og hversu langan tíma tekur þetta?
„Númer eitt þá er þetta ekki plássfrekt og framleiðslukostnaður er lítill. Ég myndi segja að þetta tæki að jafnaði svona hálfan dag með hvern fisk. Þ.e.a.s. frá því að ég byrja að prenta fiskinn á pappírinn og þangað til að lokaafritið liggur fyrir og er þurrt. Að því loknu rúlla ég síðan myndinni einfaldlega upp. Ég geri þetta oft bara í eldhúsi og all nokkrum sinnum hef ég unnið svona afrit fyrir viðskiptavini mína á vettvangi, þ.e.a.s. við árnar í veiðitúrum,“ segir Guðmundur Atli Ásgeirsson að lokum, en Vsl dettur í hug að vitlausari jólagjafahygmyndir eru víða í þjóðfélaginu!