Fyrirtaks vertíð til þessa

Vænn fiskur af austurbakka Hólsár. Mynd Kolskeggur

Sjóbirtingsveiðin hefur farið prýðilega af stað og eins og undanfarin ár eru mjög stórir fiskar áberandi í aflanum, sama hvert er litið. Fjöldi fiska yfir 70 cm, góður slatti yfir 80 cm og nokkur eintök um og yfir 90 cm, sá stærsti til þessa 98 cm hrygnutröll sem veiddist á Ásgarðssvæði Skaftár stuttu eftir opnun á dögunum.

Fyrstu sjóbirtingarnir á Austurbakka Hólsár komu á land fyrir nokkru og var þar að verki Knútur Lárusson sem þekkir ána einstaklega vel, eins og fram kemur á vefsíðu Kolskeggs, sem sér um sölu veiðileyfa á svæðinu.  „Knútur var að setja niður skilti og tók nokkur köst með þeim vorverkum. Hann landaði einum á Húsbreiðu og öðrum neðarlega á svæðinu á veiðistað númer þrjú. Að auki missti hann nokkra. Það er því líf á svæðinu en ástundum hefur ekki verið mikil í upphafi tímabils,“ segir enn fremur og fram kemur að veiðimenn hafi orðið varir við fiska víða á hinu víðfeðma svæði og máli skipti að vera duglegir og reyna sem víðast.

Norðan hretið sem skall á nokkrum dögum eftir opnun og stóð í nokkra daga dró úr veiði. Þó voru harðjaxlar hér og þar að þenja sig í rokinu og kuldanum. Og….“þeir fiska sem roa“ stendur einhvers staðar. Þegar menn þekkja svæðin og vita hvernig á að bera sig að þá setja menn í fiska.

Geirlandsá, Tungulækur, Tungufljót, Vatnamót og Eldvatn, helstu perlur Vestur Skaftafellssýslu hafa allar gefið vel. Einn 93 cm er kominn úr Tungulæk, en sá stærsti sem við höfum heyrt af var um 98 cm hrygna sem veiddist á Ásgarðssvæði Skaftár, sem tekur við af vatnamótum Tungulækjar og Skaftár. Norðan heiða hefur Húseyjarkvíslin verið drjúg og athygli þar vekja mjög vænir og þykkir geldfiskar.

Maros Zatko með skrýmslið úr Skaftá.

Annar fínn punktur er að menn eru víða að sjá og veiða meira af geldfiski, 50-60 cm heldur en síðustu ár. Þetta hljómar vel því nokkrar áhyggjur hafa verið greinanlegar víða að nýliðun væri ekki sem skyldi og veiðin stæði og félli með árgöngum þar sem einstaklingar eru orðnir bæði stórir og gamlir. Enn er þetta þó ekkert í líkingu við það sem fyrirfannst fyrir nokkrum ár, sem geldfiskar veiddust í hundraðavís í neðstu stöðum Tungulækjar til að mynda. Þar er veiðin komin á annað hundrað fiska, en uppistaðan er vænn fiskur þó að geldfiskar séu innan um.