Byrjaði vel í rokinu við Þingvallavatn

Elías Pétur, Villingavatnsárós, Þingvallavatn
Viðmælandi okkar Elías Pétur með hrikalegan fisk úr Villingavatnsárósi í gær.

Veiði hófst í gær á þekktustu urriðassvæðunum í Þingvallavatni og þrátt fyrir hvassviðri og nokkurn kulda þá gekk veiðin vel eftir því sem við höfum heyrt. Og stórir fiskar í aflanum að vanda.

Við heyrðum í Elíasi Pétri Viðfjörð Þórarinssyni sem var með félögum sínum í Villingavatnsárósi og lét hann vel af deginum. „Þetta var mjög gaman, við settum í 15 fiska þrátt fyrir takmarkaða ástundun vegna kulda og veður,“ sagði Elías í samtali við VoV. Þeir félagar voru með allt að 86 cm tröll.

Um ION svæðin svokölluðu sem samanstanda af Þorsteinsvík og Ölfusvatnsárós er að frétta að í aðdraganda opnunarinnar höfðu áhugamenn um svæðin séð mikið af fiski á þeim slóðum, sérstaklega þar sem heita vatnið kemur undan hrauninu í Þorsteinsvík. Við náðum ekki tali af veiðimönnum sem þar voru, en Elías taldi að þeir hefðu fengið yfir fimmtíu fiska. „Ég get ekki staðfest nákvæma tölu, en þeir voru í stuði þar,“ sagði Elías.

Þá má einnig geta þess að hefja mátti veiði í „Tjörninni“ svokölluðu sem er lítið vatn við suðurenda Þingvallavatns, rétt við Villingavatnslækjarósinn. Ís var þó á vatninu þangað til um síðustu helgi að fyrstu fiskarnir voru dregnir á land. Settu menn þá í þó nokkra fiska og þarna er urriðinn ekki síður vænn en í móðurvatninu.