Lax sýndi sig á speglinum fyrir ofan ósstrenginn. Tók stuttu síðar en hafði heppnina með sér og slapp. Mynd -gg.

Ein laxveiðiáin er ekki opin enn, það er Gljúfurá í Húnavatnssýslu. Hún fer þó að opna, 22.júlí koma þar fyrstu laxveiðimennirnir. VoV leit samt eftir laxi um helgina og jú, hann var kominn….

VoV staldraði við yfir helgina með leyfi Péturs Péturssonar leigutaka árinnar sem er með langtímaplan með ána. Veitt hefur verið sparlega í henni síðustu sumur, stöku vinir og kunningjar hafa fengið að reyna sig við bleikjuna í ósi Gljúfurár við Hópið og það getur verið handagangur í öskujunni þar. VoV var í góðum málum. Fengum fallega bleikjuveiði, þar á meðal fjórar sem voru 50 til 56 cm, auk tveggja sjóbirtinga sem voru 54 og 57 cm. Gersamlega galið að glíma við þá á fjarka og horfa á línuna hverfa af hjólinu og horfa síðan á þá fleyta kerlingar 60-70 metra frá landi. En við vorum líka að líta eftir laxi.

Á föstudag var enginn lax kominn í neðstu hylji, sett var í einn um kvöldið í ósnum, sem slapp eftir tíu mínútna glímu. Hann var ekki stór, en græjurnar nettar og því þurfti að fara varlega. Seinni part laugardags voru komnir fimm laxar í Brúarhyl og þá um kvöldið stökk lax ótt og títt í ósnum. Þeir í Brúarhyl voru allir stórir, en niðri í ós voru þeir allir smálaxar. Ógerningur er að tippa á hversu margir laxar voru þarna á ferð, en líflegt var það um tíma. Þarna hafði dregið upp skýjaklakka og skúrir dundu á veiðimenn. Bræla á vatninu. Seint um kvöldið sýndi lax sig á brotinu fyrir ofan ósstrenginn, hann var strippaður með smárri flugu, hann tók eftir mörg köst, en fór af við vindhnút…..

 

Fyrstu laxveiðimenn koma í ána þann 22.7 og eiga þeir von á góðu. Fyrstu laxarnir mættir og fleiri að hlaða í göngu úr Hópinu.