Menn hafa verið með tilraunaveiðar að vori í Ytri Rangá, en þetta vorið er selt í ána, það staðfesti Jóhannes Hinríksson umsjónarmaður árinnar í skeyti til VoV. Hann sagði að vel hefði farið af stað þrátt fyrir kulda nær allan tíman frá opnun. Stórir fiskar innanum.



„Við opnuðum 1.apríl eins og víðar og fengum 38 fiska á 4 dögum, 4 kallar að veiða um það bil 5-6 tíma á dag, enda lentum við í miklum kulda eins og aðrir, sagði Jóhannes sem heldur utanum veiðileyfasöluna í gegnum johannes@westranga.is. Eru leyfin hófstillt miðað við veiðivon eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem að Jóhannes leyfði okkur góðfúslega að birta. Fisk var víða að finna, en heitustu staðirnir að sögn Jóhannesar voru Gunnugilsbreiða, Breiðibakki, Línustrengur/Djúpós og Brúarhylur. Stærðin? „Frá 1,5 kg upp í 8,5 kg. Vigtað í háf og sleppt. Öllu sleppt. Lengsti 85 cm, slatti af 70-80 cm. Svo mikið líka 2-3kg. Fiskarnir voru einungis veiddir á flugu og gekk best að nota litlar túpur og ýmsar straumflugur.“