Kistan, girðingin og gildran. Myndin er fengin af FB síðu Elliðaána.

Það var sumar- en ekki vorboði sem lét sjá sig í vikunni við Elliðaárnar. Teljarahindrunin, kistan sjálf og seiðagildran voru sett niður milli rafstöðvarhúsana, sem sagt á hefðbundnum stað.

Ekki er þó búið að tengja teljarann, enda kannski full snemmt fyrir laxinn í Elliðaánum. Spurning hvort að eitthvað af hoplaxi hafi orðið innlyksa ofan við girðinguna. Slíkt hefur gerst áður, einstaka sinnum í svo miklum mæli að gerðar hafa verið seinni tíma ráðstafanir til að reka laxana niður fyrir.

Þetta er sem sagt sumarboði. Þó að laxinn sé varla farinn að kíkja í Elliðaárnar þá eru nokkur svæði þar sem laxinn er án efa mættur, þ.e.a.s. þeir fyrstu. Við höfum verið duglegir hér á VoV í gegnum árin að minna á að netavertíðin gamla í Hvítá í Borgarfirði hófst ætíð 20.mai og jafnan veiddist eitthvað, stundum lítið, en stundum líka talsvert. Þá hefur komið fyrir af og til seinni árin að laxar hafa veiðst á silungaslóðum undir lok mai, má nefna Ásgarð í Sogi, Brennu og Strauma í Hvítá. Og lax sést jafnan víða síðustu viku af mai, má heita árlega í Laxá í Kjós, Elliðaánum og Norðurá og Haffjarðará, Laxá í Aðaldal og aðrar hafa stundum dottið inn líka. Það er sem sagt allt að fara í gang.