Ratcliffe opnaði Tungulæk og það var líflegt

Tungulækur, Jim Ratcliffe
Gísli Ásgeirsson t.v. og Jim Ratcliffe með fallegan birting úr Tungulæk í dag. Mynd Ingólfur Helgason.

Tungulækur opnaði í dag, ekki í gær eins og venjulega. Þar var aðeins veitt á eina stöng og þar var á ferðinni Jim Ratcliffe, eigandi meirihluta í Streng sem er leigutaki Selár og Hofsár í Vopnafirði. Ratcliffe er ekki fyrir að veiða með sökklínum og þungum flugum, þannig að veiðitölur eru ekki í stíl við hið venjulega.

Sem sagt, afli dagsins var tólf birtingar og aðeins veitt í ca hálfan dag, en menn voru mikið að hoppa inn í bíl til að njóta miðstöðvarinnar, enda norðan garri og verulega kalt. Ratcliffe veiðir bara með flotylínu og smáum flugum, notaði aðeins minnstu gerð af Skugga Sigga Haugs. Þegar allt er skoðað, þá er þetta vel gert miðað við aðstæður. Að sögn aðstoðarmanna Ratcliffs var mikið af fiskii og þeir voru dreifðir, ekki búnir að þjappa sig. Fiskur í öllum hyljum.