4 milljarða fjárfesting á tíðindadegi

Jim Rathcliffe, Gísli Ásgeirsson
Jim Rathcliffe og Gísli Ásgeirsson ræða málin við opnun Selár2019. Mynd -gg

Það með sanni segja að í dag hafi verið tíðindadagur í sögu laxveiða á Íslandi. Veiðiklúbburinn Strengur, sem hélt upp á 60 ára afmæli sitt rétt fyrir jól 2019, rann inn í The Six Rivers Project, félagsskap sem Sir Jim Ratcliffe stofnaði og stendur að. Sjálfsagt rökrétt þar sem Sir Jim á nú meirihluta í Streng.

Hér eru Gísli Ásgeirsson og Hilmar Jónsson með fallega hrygnu úr Selá 2016. Mynd -gg.

Það er samt ekki svo mikið að breytast, Strengur á sína sögu ævinlega og hún hefur verið skráð. Framkvæmdastjóri er sem fyrr Gísli Ásgeirsson, en Ingólfur Helgason sem hefur staðið honum við hlið hverfur nú til anarra starfa með haustinu. Stöðu hans tekur Helga Kristín Tryggvadóttir. Eftir sem áður er sýslað með sölu veiðileyfa, aðallega áa í Vopnafirði og í Bakkafirði, en einnig sjóbirtingsána frægu Tungulæk. Og eftir sem áður eru þær fyrirætlanir 6RP sem raunar voru kynntar fyrst á fundi í veiðihúsi Selár, Fossási, sumarið 2019.

Aðal áhersla 6RP er vernd laxins í Norður Atlantshafi sem víða á undir högg að sækja. Er raunar í bráðri hættu mjög víða. Verndarstarfið byggir á þremur meginstoðum, hrognagreftri, fiskvegagerð og stuðningi við margháttaða búsvæðabætingu- og aukningu. Verkefnið er unnið af sérfræðingum, m.a. doktorsnemendum frá Hafró, HÍ og Imperial College London. Og sem fyrr er það Sir Jim Ratcliffe sem fjármagnar pakkann, auk þess sem stefnt er að því að tekjuöflum 6RP á sölu veiðileyfa verði sjálfbær, en allar tekjur 6RP munu renna í verkefnið, auk þess sem Sir Jim frjárfestir andvirði 4 milljarða króna í verkefnið.

Fossinn fallegi í Hofsá séður úr lofti. Mynd Einal Falur.

Einn liður í tekjuöflun 6RP sækir í milljarða fjárfestingu Ratcliffs, því gert er ráð fyrir byggingu fjögurra nýrra veiðihúsa á svæðinu. Lengst á veg komið er bygging veiðihúss Miðfjarðarár í Bakkaflóa, svo og vegleg viðbygging við hið nýja veiðihús Selár. Enn fremur verður byggt nýtt veiðihús við Hofsá og í Vesturárdal, á bakka Vesturárdalsár. Veiðihúsin við Miðfjarðará og Hofsá eru áætluð á öðrum stöðum en núverandi hús standa. Núverandi veiðihús Hofsár verður nýtt fyrir silungasvæði árinnar og núverandi veiðihús Miðfjarðarár verður nýtt fyrir starfsfólk ána allra, enda stutt á milli.

„Fyrir utan virkjanaframkvæmdir þá er þetta líklega lang stærsta verkefni sem einstaklingur eða félagasamtök hafa tekið sér fyrir hendur á landsbyggðinni. Veiðihúsin verða eign 6RP,“ sagði Gísli Ásgeirsson á blaðamannafundi sem haldinn var fyrr í dag.  Gamla venjan á Íslandi er að veiðifélögin taki þátt í fjármögnun veiðihúsa og eignist þau með tímanum. Nú kveður við annan tón. „Þetta er ekki til að lasta veiðifélögin og þau standa með okkur í þessu. En þau bera engan kostnað af þessum framkvæmdum, en njóta samt góðs af uppbyggingunni. Menn gætu spurt til hvers verið sé að ráðast í þetta. Með þessu erum við að bæta aðbúnað á svæðinu sem við trúum að muni laða að laxveiðimenn hvaðanæva að. Búa til lúxusaðstæður sem að munu laða menn hingað, mögulega munum við með þessu getað hækkað verðleiðileyfa, enda tilgangurinn að fjármagna þær uppbyggingar- og verndaraðgerðir sem hér eru til umræðu og eru langtímaverkefni. Þessar framkvæmdir sýna á skýran máta markmið okkar um verndun Norður Atlantshafslaxins í ánum á Norðausturlandi. Með byggingu veiðihúsa af bestu gerð á þessum afskekta hluta landsins vonumst við til að búa gestum okkar einstaka reynslu við stangaveiðar. Tekjurnar af þeirri starfsemi ganga svo til fjármögnunar áframhaldandi verndarstarfs.“