Íslenska fluguveiðisýningin, Nils Folmer
Stemming var góð á síðustu sýningu, hér er Nils Folmer Jörgensen að mynda flugur sem honum þykir greinilega varið í.

Aðalfundur SVFR er kannski stærsta málið í augnablikinu,enda fer hann fram í dag og við greindum frá fundinum í fréttum okkar á dögunum, en næsti viðburður verður að teljast Íslenska fluguveiðisýningin 2019 sem haldin verður í Háskólabíói fimmtudaginn 14.mars næst komandi. Þetta er annað árið í röð sem samnefnd sjálfseignastofnun stendur fyrir sýningunni.

Gunnar Örn Petersen, einn eigenda Fishpartner er meðal forsvarsmanna sýningarinnar og sagði hann í samtali við VoV að undirbúningur væri kominn á fullt skrið enda stutt í sýninguna. „Þetta heppnaðist mjög vel í fyrra og verður ekki minna í ár, jafnvel stærra. Þetta er með líku sniði og í fyrra, fjölbreyttir básar verða í anddyrinu, veiðileyfasalar og verslanir eru þar fyrirferðamiklar. Síðan verður blásið til málsstofu þar sem fjallað er um umdeildar breytingar sem boðaðar hafa verið á reglugerðum um sjókvíaeldi hér við land. Meðal þeirra sem þar verða í eldlínunni má nefna Jóhannes Sturlaugsson fiskifræðing hjá Laxfiskum og Kristján Þórarinsson stofnvistfræðingur. Fleiri verða kallaðir til, en stofunni stýrir Eggert Skúlason. Þessum degi lýkur síðan með IF4 kvikmyndasýningunni þar sem vandaðar veiðimyndir munu bera fyrir sjónir,“ sagði Gunnar Örn.

Og hann bætti um betur og sagði: „Sem ég segi, þetta lítur út fyrir að vera vaxandi hjá okkur. Við horfum til svipaðra sýninga erlendis og sjáum að við erum að halda alvöru sýningu. Við gætum þó gert enn betur og horfum til þess. Íslendingar eru kannski fámennir, en þessi vettvangur okkar er þó mikilvægur og við veltum fyrir okkur að færa þetta næst inn á sumarið og kynna sýninguna beggja vegna Atlansála, stefna sem sagt saman mun stærri hópi veiðimanna, veiðileyfasala og veiðivöruframleiðenda.“

Það má svo rifja upp, að dálítill hagnaður var af sýningunni í fyrra, eða 650þúsund krónur. Þar af hefur Íslenska fluguveiðisýningin þegar styrkt NASF og IWF um 200þúsund krónur hvorn hóp. Ætlunin er að veita fleiri styrki eftir komandi sýningu.