Umræðan upp komin á ný: Of mikið af urriða á kostnað bleikju?

Cezary með stórfiskinn í morgun.

Veiðigarpurinn mikli Cezary Filjakovski setti í morgun mynd af sér á FB með glæsilegan urriða sem hann veiddi í Þjóðgarðinum á Þingvöllum. Og um leið opnaði hann á umræðu sem fór af stað í fyrra, að allt of mikið væri af urriða, fiskar væru smærri og í verra ásigkomulagi. Á sama tíma fækkaði bleikju og murtu.

„Fjölgun urriðans er stjórnlaus og þeir eru of margir. Þetta er ástæðan fyrir því að fiskarnir eru minni og í verra formi,“ segir Cezary og félagi hans Ásgeir Ólafsson tekur undir og segir: „Sammála þér vinur. Veiðikortið ætti að hætta með veiða og sleppa í apríl og maí í Þjóðgarðinum, sérstaklega á minni fisknum 1-3kg.“

Snævar Örn Georgsson veiðimaður og veiðileiðsögumaður á Austurlandi er alls ekki sömu skoðunar og segir:  „það ætti einmitt ekki að gera. Hvaða fiska á þá að veiða þegar þeir stóru drepast úr elli?“ Og Ásgeir svarar að bragði:  „ jú það ætti einmitt að gera. Þessi fiskar 1-3 kg eru fínir matfiskar og er ekkert að því þótt menn  taki sér í soðið. Ég er búinn að veiða bleikju og murtu í Þjóðgarðinum frá 5 ára aldri og undanfarin ár hefur bleikjunni og murtunni fækkað mikið á kostnað urriðans. Það þarf að ná aftur betra jafnvægi í vatnið. Með því að drepa eitthvað af 1-3 kg urriðanum þá hagnast bleikju- og murtustofninn á því til framtíðar og stóru urriðarnir fá meira að éta. Tek það fram að ég hef engan sérstakan áhuga á að veiða urriða í Þingvallavatni en vil geta mætt á morgnana í Þjóðgarðinn og kastað á bleikjurnar en ekki nánast fisklaus svæði sem áður voru þétt setin af bleikju og murtu.“

Svona eru ansi margir urriðarnir í Paradísinni þessa daganna. Myndin er tekin í fyrra.  Mynd Cezary.

Snævarr er fljótur til svars:  „ „Það þarf að ná aftur betra jafnvægi í vatnið“  Þetta er einmitt málið. Mannfólkið vill hafa stöðugleika á meðan allt í náttúrunni gengur í sveiflum. Ef það er of mikið af urriða þá fækkar honum og þá fjölgar murtunni og bleikjunni. Þá fjölgar urriðanum aftur o.s.frv.  Náttúran mun sjá um það. Það ganga allir dýrastofnar í náttúrunni í sveiflum. Ef það er of mikið af urriða þá fækkar honum og þá fjölgar murtunni. Þá fjölgar urriðanum aftur o.s.frv.“

Þetta er áhugaverð stúdía, en í fyrra birti Cezary myndir af grindhoruðum urriðum og Ásgeir Ólafsson viðhafði sömu sögu um stöðu bleikjunnar í vatninu. Þekkt er að urriða hefur fjölgað gríðarlega í Þingvallavatni síðustu árin og „fjölmennir“ árgangar farið stækkandi í þyngd og lengd.

Þetta er líka athyglisvert í því samhengi að rætt hefur verið um að opna fyrir Efra Sog til að virkja upp á nýtt þær hrygningarstöðvar urriðans sem fóru forgörðum forðum. Einnig hefur af og til skotist upp umræða um að flytja urriða af þéttsettnum hrygningarsvæðum í Öxará upp fyrir Öxarárfoss til að nýta búsvæðin sem þar er að finna. Þau munu vera mjög góð og sambærilegar aðgerðir hafa verið gerðar með góðum árangri í laxveiðiám. Allt er þetta hugsað í þeim tilgangi að gera urriðanum kleift að fjölga sér enn meir en verið hefur.