Árshátíð SVFR
Ein af árshátíðunum...fyrir margt löngu.

SVFR hefur ákveðið að endurvekja árshátíð félagsins sem þótti á sínum tíma með flottari böllum landsins ár hvert. Hátíðinni var hins vegar slaufað fyrir áratug, „í ljósi aðstæðna“ eins og segir í fréttatilkynningu frá SVFR.

Óhætt er að segja að fyrrum hafi mikill glans fylgt böllum þessum og var engu til sparað í mat, drykk og flottasta pússi. „gárungar“sem létu ekki sjá sig höfðu sína skoðun og kölluðu hátíðina gjarnan „Maðkaballið“, en það beit ekki á vinsældirnar og glæsileikann. Jón Þór Ólason formaður SVFR sagði í samtali við VoV þessa ákvörðun tekna í tilefni af 80 ára afmæli félagsins. „Sem fyrr verður engu til sparað, en við munum jafnframt sjá til þess að verðlagi verði þannig stillt að engum dyljist að þessi árshátíð er fyrir alla, ekki bara einhvern útvalinn hóp,“ sagði Jón Þór, sem skoraði í leiðinni á veiðifólk að taka frá 18.mai næst komandi, en þá fer hátíðin fram, og hvar annars staðar en í Súlnasalnum.