Kári Ársælsson, Sunnudalsá
Kári Ársælsson með 85 cm hæng úr Sunnudalsá í Vopnafirði fyrr í vikunni. Laxinn er lítið sem ekkert leginn. Mynd -gg.

Þetta er að fjara út og núna er stóra spurningin hvort að Ytri nær að smjúga fram úr Eystri á lokametrunum. Það er ekki útilokað, þar hefur gengið heldur betur að undanförnu og bilið er að minnka. En það kemur í ljós og skiptir kannski ekki öllu máli. Eystri er miklu betri en í fyrra, Ytri er miklu lakari en í fyrra. En í báðum veiðist vel.

Vikutölurnar eru sem sagt komnar og við kíkjum á þær svona eins og af gömlum vana þó að mesta spennan sé búin. Eins og einhver sagði, laxarnir sem barið er á þessa daga og vikur eru búnir að vera lengi í ánni og lítið hefur bæst í hópinn í all nokkurn tíma.

Við skulum renna yfir lista sem sýnir heildartöluna síðasta miðvikudagskvöld, í sviga er lokatala síðasta sumars og síðan vikutalan og þar má sjá að þetta er orðið ansi þreytt víða. En við heyrðum af einum góðum punkti í vikunni. Norður- og Norðausturlandið er undirlagt af smálaxabresti. Uppúr stendur Miðfjarðará eins og stundum áður. Þó að hún sé töluvert undir lokatölu síðasta sumars þá hefur hún samt sem áður gefið meira heldur en nágrannaárnar Víðidalsá, Vatnsdalsá, Laxá á Ásum, Blanda og Hrútafjarðará til samans!

Jökla
Franskur veiðimaður með 94 cm hæng úr Jöklu, þar sem vel hefur veiðst þrátt fyrir yfirfallið, sem er reyndar í rénum.

En hér er listinn:

Eystri Rangá            3617 (2143) – 131

Ytri Rangá                3445 (7451) – 268

Miðfjarðará               2509 (3765) –  149

Þverá/Kjarrá              2455 (2060) – 11

Norðurá                     1692 (1719) – 82

Haffjarðará                 1545 (1167) – 43

Langá                         1442 (1701) – 47

Selá                            1315 (937) – 32

Urriðafoss                   1284 (755) – 27

Laxá í Dölum               971 (871)  – 92

Elliðaárnar                   953 (890)  – 21

Laxá í Kjós                   903 (860)  – 49

Blanda                          866 (1433) – 5

Affall                             759 (193)  – 66

Laxá á Ásum                670 (1108) – 26

Laxá í Leirársveit          661 (624)  – 26

Hofsá                            650  (589) – 21

Haukadalsá                   603  (503) – 21

Laxá í Aðaldal                590 (709)  – 12

Hítará                             579  (494) – 28

Víðidalsá                         535  (781) – 25

Flókadalsá                       456 (423) – 16

Vatnsdalsá                       441 (714)  – 27

Jökla                                 425 (355)  – 17

Þverá í Fljótshl                  483 (448) – 14

Stóra Laxá                         380 (590) – 20

Straumfjarðará                   328 (352) – 17

Þarna eru ágætis vikutölur. Miðfjarðará, Affallið, Laxá í Dölum, Norðurá. En annars er þetta haustlegt. Það gæti glæðst í blálokin ef að koma frábær skilyrði, því eins og Pétur Pétursson sagði þá er oft fínasta haustveiði þó að lítið sé af laxi. Bara ef að skilyrði eru rétt!