Vatnsá, Frúarhylur
Frúarhylur í Vatnsá. Þarna er lítið vatn í ánni, en er nú mun minna. Mynd -gg.

„Það er ægilegur sjóbirtingur í Vatnsá núna, menn halda því fram fullum fetum að hann sé þrjátíu punda,“ sagði Ásgeir Arnar Ásgeirsson umsjónarmaður árinnar í samtali við VoV. Ekki hefur þó tekist að hafa hendur í hreistri þessa fiskjar en í hvert sinn sem hann lætur á sér kræla fer gæsahúð um mannskapinn.

Tröll þetta hefur haldið til í Frúarhyl, sem er aðalstaðurinn í Vatnsá. Hann hefur látið sig hverfa af og til en jafnan birst á ný. Mikið hefur verið reynt við hann en ekki gengið upp. Smærri fiskar, bæði laxar og birtingar, hafa hins vegar gefið sig og áin mun færa sig yfir þá tölu sem hún gaf í fyrra, þá veiddist alls 121 lax í ánni, en fyrir fáum dögum var talan komin í 114 eftir nokkuð líflegar vikur í september. Júlí var sá besti í Vatnsá fyrr og síðar, en laxveiðin dalaði nokkuð í ágúst áður en hún reif sig aftur upp í þessum mánuði. Í fyrra voru auk þess skráðir 238 „silungar“ sem er blanda af staðbundnum og sjógengnum urriða, en á dögunum voru komnir 255 í bók, eða meira en í fyrra og er veitt til 12.10.  „Það dró aðeins úr laxveiðinni í ágúst, en hefur lifnað nokkuð aftur. Hins vegar er meira af birtingi en áður og honum hefur farið fjölgandi síðustu árin. Mjög vænir fiskar eru í bland og við má bæta að menn hafa einnig verið að fá fína veiði í vatninu, bæði sjóbirting og staðbundinn silung. Sumir lent í hreinustu ævintýrum,“ sagði Ásgeir enn fremur.