Urriðafoss og Andakílsá topparnir

Atli Bergmann með flottan lax úr Andakílsá. Myndin er stolin af FB síðu hans.

Vikutölurnar bárust í gærkvöldi hjá angling.is og svo sem ekki mikið að frétta á þeim vígstöðvum. Veiði enn róleg, en alls ekki steindauð. Langt því frá. En þó að nokkuð sé eftir af vertíðinni er ekki útlit fyrir að þetta sumar toppi það síðasta, svona heilt yfir litið. Okkur langaði í þetta skiptið að skoða hvar veiðin væri best…í raun.

Og niðurstaðan var skemmtileg, í Urriðafossi og Andakílsá. Sem kunnugt er varð alvarlegt umhverfisslys við Andakílsá fyrir nokkrum árum. Einhverjum snillingum datt í hug að hleypa úr uppstöðulóni virkujnar út í ána og hún fylltist af leir og drullu. Hrygningarsvæði fóru undir slorið og laxar drápist. Áin var lokuð í nokkur ár í kjölfarið og reynt að hreinsa hana auk þess sem laxar sem lifðu hamfarnir af voru teknir í kreistingar.

Í fyrra var svo opnað fyrir tilraunaveiði og kom þá í ljós að áin hafði sjaldan verið betri! Nú er hún opin og í sölu. Hún opnaði 20.júní og um kvöldið 18.ágúst höfðu veiðst 250 laxar á tvær stangir. Sem sagt 125 laxar á hvora stöng  á 66 veiðidögum. Þetta er með því besta sem við finnum í íslenskri laxveiðistatistík í sumar, en nær samt ekki nema að rétt slefa yfir 1 laxa á stöng á dag. Hins vegar verður að segja, að veiðin var ekkert góð framan af, en hefur batnað mikið þegar á hefur liðið. Þannig að margir dagar hafa verið mjög góðir. Samanlagt rétt slefar þetta þó yfir 1 lax á stöng á dag.

Svo er það Urriðafoss og hann hefur eiginlega vinninginn. En það munar ekki svo miklu, hann nær nokkuð vel yfir 1 laxa á stöng á dag. Þar hefur verið veitt á fjórar stangir í 79 daga. Það eru 205 laxar ás stöng að jafnaði. Miðað við dagafjölda nær þetta nokkuð þokkalega yfir 1 lax á stöng á dag. Ritstjóri er að vísu rosalega lélegur í stærðfræði, þannig að leiðréttingar eru kærkomnar.

Urriðafoss með 820 laxa og 971 í fyrra, eitt af þeim svæðum sem gæti toppað sig frá í fyrrra.

Neðri hluti Urriðafoss í Þjórsá, þar er m.a. veiðistaðurinn Hulda. Myndin er frá IO Veiðileyfi.

Að öðru, angling.is er alveg með þetta og ekki ástæða til að birta mikið af þeirra tölum, þeir eiga skilið sína svörun við sinni vinnu. En stutt þó: Aðeins fimm ár eru komnar yfir 1000 laxa múrinn. Það er mjög slakt á okkar vísu. Eystri er hæst, þar eru þokkalegar vaktir, sérstaklega morgunvaktirnar, 1873 laxar  komnir á land, en hún er aldrei að komast nálægt metinu sínu síðan í fyrra, 9070 laxar.

Ytri er í öðru sæti, 1799 laxar þar, 2642 í fyrra. Miðað við þær hæðir sem að Ytri náði á árum áður þá er þetta í besta falli skítsæmilegt. En verum þakklát að það er langt frá því að vera laxlaust.

Norðurá hefur ákveðna sérstöðu núna, hún er þegar komin yfir heildartölu síðan í fyrra. Var með 1209 laxa í gærkvöldi en gaf aðeins 980 í fyrra, sem var risa viðbót frá steindauða sumrinu 2018. Það er Því ekki úr háum söðli að detta, en auðvitað fögnum við kúrfu sem veit upp á við.

Sama má segja um Þverá/Kjarrá,  11 löxum í gær frá því að slá út tölu síðasta árs, 1017/1027. Þarna á milli Borgarfjarðarána er Miðfjarðará sem einhvern vegin tekst alltaf að halda einhverskonar dampi, 1123 í gær, alls 1725 í fyrra, þannig að rosalegur endasprettur gæti skipt sköpum.

Það sem allir sem við höfum rætt við eru sammála um, þá eiga mjög margar ár töluvert inni. Það hafa verið þurrkar, hitar, sólfar, slýreki af þeim sökum. Gott haust gæti hrist vel upp í málunum. Viða er talsvert af laxi sem bara tekur ekki vegna vondra skilyrða. En það þarf allt að koma í ljós. Hvernig fer.