Risableikja úr Eyjafjarðará!

Jón Gunnar býr sig undir að sleppa tröllinu, Peter myndar.

Ein stærsta sjóbleikja í manna minnum veiddist í Eyjafjarðará í dag, 10 punda stykki á efsta svæðinu, svæði fimm, þar sem hrygningarbleikjurnar raða sér oftast, sumar eftir sumar.

Hér eru þeir félagar Jón Gunnar og Peter með fiskinn og þetta er myndin sem sýnir fiskinn ekki í sínu rétta ljósi.

Það var Jón Gunnar Benjamínsson sem greindi frá fiskinum, en hann var á veiðum með Peter Söndergard Sörensen, á svæði 5 sem fyrr segir. Jón Gunnar:  71 cm, ummál 39 cm og áætluð þyngd rétt um tíu pund.

Myndirnar tvær eru síðan skýrt dæmi um hversu fiskar myndast breytilega, en oft eru menn á samfélagsmiðlum að brigsla öðrum um óheilindi. Á annarri myndinni er engin leið að sjá hversu stór þessi bleikja er, en á hinni fer það ekki á milli mála.