Sunnudalsá
88 cm hrygna í Lækjaróshyl í Sunnudalsá.....

Spútnikár, alltaf einhverjar. Það mætti nefna í sumar Þverá/Kjarrá, Eystri Rangá, Laxá í Dölum. En við höfum fylgst vel með Sunnudalsá í Vopnafirði. Það er nú eining og augljóslega mjög spennandi og ekki dregur úr að efra silungasvæði Hofsár fylgir nú Sunnu. VoV vísiteraði nýlega….

Radian, Sunnudalsá
Radian var að slá í gegn!

Sunnudalsá rennur um Sunnudal og bætist út í Hofsá á svokölluðu efra silungavæði Hofsár, sem þýðir, ekki svo langt frá sjó. En það eru samt nokkrir kílómetrar. Sunnudalsá er forkunnar fögur og hefur yfir 60 merkta veiðistaði á einum 17 kílómetrum. Hún var lengst af tekin með í tölum með Hofsá og er reyndar enn, þrátt fyrir að hafa verið tekin út sem sér eining síðustu ár. Allra síðustu ár voru erlendir auðmenn með alla daga og komu og fóru eftir hentugleika. Þá var álag lítið og þar af leiðandi lítið að marka hvað þessi perla gæti gefið af sér. Í gegnum árin hafa verið skráðir allt frá 30 löxum og uppí í annað hundrað á þrjár stangir. Allt eftir árferði og áin tók dífu með Hofsá síðustu árin.

Sunnudalsá
Sunnudalsá, Árstrengur. Mynd Jón Eyfjörð.
Sunnudalsá
Barist við 78 cm hrygnu í Girðingarhyl í Sunnudalsá.

En í sumar er eitthvað skemmtilegt í gangi. Áin er kaldari en Hofsá og oftast talin síðsumarsá. Hitabylgjan framan af sumri varð til þess að laxinn gekk greiðlega upp fyrr en gengur og gerist. VoV var í ánni í byrjun ágúst . Landaði 10 löxum og fór þá talan í 70. Athuga verður að ekki var opnað fyrr en 25.7. Hópurinn sem kom á eftir VoV landaði 8 löxum á fyrsta dagsparti, en lenti svo í flóðum og drullu. Tók þá fyrir allt. En augljóslega er eitthvað í gangi. Og þetta er svo hrá náttúra þarna í Vopnafirðinum, einn morguninn þegar VoV steig út á pall fyrir fríska loftið, þá var þar minkur á vappi….uppi á palli, en lét sig að sjálfsögðu hverfa. Og síðasta kvöldið voru menn að spá og spjalla við Fellshyl niður í Hofsá, hættir og að njóta kvöldsins, þá var allt í einu kominn selur í hylinn! Allt að gerast….en menn sáttir, tíu laxar og 30 bleikjur. Er eitthvað betra?