Ásdís Guðmundsdóttir að glíma við vænan sjóbirting við ós Gljúfurár út í Hópið.

Eftir að hafa vísiterð silungasvæði Víðidalsár í fyrradag, kíkti VoV við á tveimur öðrum þekktum silungasvæðum í Húnaþingi, ós Gljúfurár við Hópið og silungasvæði Vatnsdalsár sem er eitt hið besta á landinu.

Kominn á land, 65 cm sem tók þyngda Heimasætu, fremur stóra og strippaða.

Nú fer í hönd sölutími á Gljúfurá og ósinn við Hópið. Laxveiðitíminn er þó ekki kominn, lax gengur að jafnaði seint í Gljúfurá. Ekki telst ráðlegt að selja í það fyrr því það getur komið fyrir að bleikja kemur ekki í ósinn fyrr en kemur fram í júlí. En stundum er fiskur fyrr á ferð og það fékk VoV að reyna. Ríflega tveggja stunda stopp skilaði fjórum bleikjum, 40 til 50 cm og tveimur sjóbirtingum, 47 og 65 cm. Tveir fiskar sluppu þar af ein verulega stór bleikja og tökur voru margar, en grannar. Mest gekk á í um fjörtíu mínútur. En fiskur er vissulega kominn í kastfæri á þessum geðþekka stað.

Það finnst fleira á silungasvæði Vatnsdalsár en silungur og lax, þessi forláta flundra tók Glóðina

Silungasvæði Vatnsdalsár kemur inn mun fyrr að jafnaði og þar hefur veiði verið nokkuð góð á köflum, komið góð skot, sérstaklega í aðdraganda hápunkts síðasta straums. „Það fjaraði aðeins undan þessu þegar straumurinn var í hámarki eins og oft virðist gerast, eins og best veiðist í nokkra daga á undan toppinum og síðan aftur 2-3 dögum eftir hann. Samkvæmt því gæti farið að glæðast aftur hvað og hverju,“ sagði Pétur Pétursson leigutaki. Hann sagði bleikjuna þó ekki komna upp á laxasvæðið eins og hún gerir jafnan í stórum stíl, en reytingur væri kominn af sjóbirtingi, allt að 70 cm þeir stærstu til þessa. VoV staldraði við í stuttan tíma í Brandanesi að vestan, háflæði var að ná hámarki. Kannski ekki besta tímasetningin, en þó var ekki núllað því vænsta flundra snaraði sér á fluguna og endaði á grillinu.