Risalax í grásleppunet fyrir austan

Haraldur Árnason.
Hér er Haraldur Árnason með risalaxinn. Myndin er fengin af vefsíðu Strengja.

Þröstur Elliðason leigutaki Breiðdalsár og Jöklu segir frá því að risalax hefði veiðst í grásleppunet á Austfjörðum fyrir fáum dögum. Laxinn er náttúrulega farinn að þefa af ströndinni og árósum og þessi veiddist um það bil miðja vegu milli fyrrnefndu ánna. Heyrum hvað Þrösturinn söng….

„Einstöku sinnum veiðast þeir í grásleppunet og þessi kom fyrir nokkrum dögum í slíkt net fyrir austan undir Skálanesbjargi milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar . Þetta er mitt á milli Breiðdalsár og Jöklu sem eru miklar stórlaxaár og freistandi að ætla að hann hafi verið á leið í aðra hvora!  Veiðimaður var Haraldur Árnason og sagði hann að þetta hafi verið glæsilegur lax og greinilega af náttúrulegum stofni en skaddaðist aðeins í netinu sem von var. Hann vóg slétt 15 kg og var 112 cm langur og mjög þykkur, glæsilegur fiskur. Tekið verður hreisturssýni af laxinum og þá verður hægt að fá meiri upplýsingar um hann.“