Kjarrá, Víghóll, Einar Falur
Frá Kjarrá. Heimahyljirnir og veiðihúsið Víghóll. Mynd Einar Falur.

Veiði hófst í Þverá og Kjarrá í morgun. Það var lífilegt í Þverá, en þær fregnir sem borist hafa ofan úr Kjarrá eru ekkert annað en galnar! Þó vantar talsvert inn í þær fréttir, enda samband þar efra erfitt.

Guðný Hansdóttir, Kristján Grétarsson, Þverá
Guðný Hansdóttir með fallega hrygnu úr Þverá í morgun. Mynd Kristján Grétarsson.

Við ræddum við Ingólf Ásgeirsson sem var að opna á neðra svæðinu, þ.e.a.s. í Þverá og sagði hann fregnirnar að ofan vera með miklum ólíkindum. „Ég hef bara fréttir af tveimur stöngum sem áttu Runka sitt hvora þrjá tímana og það var 19 löxum landað úr hylnum í morgun. Fyrstur þangað fór Jón Sigurðsson og frú og lönduðu þau 12 löxum og misstu nokkra. Jón Mýrdal tók við, en fór fyrst í Valdemar og landaði einum. Tók síðan við Runka og landaði sjö löxum og missti nokkra. Af öðrum stöngum hef ég ekki frétt, en þarna eru staðfestir tuttugu laxar. Runki hefur oft verið drjúgur vorveiðistaður, en þetta slær held ég allt út,“ sagði Ingólfur.

Það var líflegt í Þverá, en þó aðeins 3 löxum landað. Fiskur tók grannt og misstu menn all nokkra laxa og víða, t.d. í Kirkjustreng, Kaðalstaðahyl, BB, Skiptafljóti og víðar. Við munum fylgjast með gangi mála í Þverá og Kjarrá í dag og koma vonandi með lokatölur dagsins í kvöld, gangi allt að óskum.