Óhemjugóð sjóbirtingsveiði fyrstu daga vertíðarinnar í vor þurfa kannski að koma svo mjög á óvart því að veiðimenn á þeim slóðum hafa séð mikinn uppgang í sjóbirtingsstofnum í ám á þeim slóðum síðustu árin. Veiðislóð hleraði Magnús Jóhannsson fiskifræðing um þessa fínu uppsveiflu.

Magnús hefur fylgst með og rannsakað sjóbirtinginn á Suðurlandi eins lengi menn muna. Hann þekkir sveiflurnar hjá þessum oft dularfulla fiski og við spurðum hann fyrst hvort hann væri ekki til í að staðfesta þær fregnir síðustu ára, ekki síst í fyrra og fyrstu daga núverandi vertíðar, að uppsveifla væri svo sannarlega í gangi. Og, hverjar gætu skýringarnar verið?

Hann svaraði: Veiði á sjóbirtingi hefur verið að aukast í Skaftárhreppi síuðustu ár eftir nokkra lægð þar á undan. Alltaf eru sveiflur í veiðinni, erfitt getur verið að greina hver ástæðan er, þar skiptir og máli hvernig aðstæður eru til veiða, einkum í vorveiði. Held þó að skýringin sé stærri stofnar.  Sandsíli, sem er aðalfæða sjóbirtings í sjó, hefur verið í lægð, en virðist vera að rétta úr kútnum, sem getur skýrt uppsveifluna.“

Magnús Jóhannsson
Magnús að stríða einum rígvænum.

Nú er hreint og klárt V&S í flestum ánum í Vestur Skaftafellssýslu og margir halda því fram að það sé megin ástæðan fyrir uppsveiflunni, hvað segir Magnús:  „Klárlega hefur það áhrif að veiða og sleppa varðandi nýtingu sjóbirtings. Sjóbirtingarnir eru langlífir, geta hrygnt mörgum sinnum og eru því að fara margar ferðir milli sjávar og ferskvatns , sömu fiskarnir geta verið inni í veiðinni í mörg ár. Hrygningarfiski úr vorveiði ætti skilyrislaust að sleppa. Þeim sjóbirtingum sem sleppt er eftir veiði hefur fjölgað hlutfallslega á síðustu árum og á það við flestar ár í Skaftárhreppi. Þetta gerir það líka að verkum að stórum sjóbirtingum fjölgar.“

Eftir því er líka tekið að í ám eins og Geirlandsá, þar sem eitthvað af fiski er drepið, er einnig öflug uppsveifla, met í ánni í fyrra og metopnun og morandi af fiski núna. Getur það þýtt að hóflegt dráp skiptir ekki máli þegar svona stendur á?

Magnús segir:  „Það hefur aukist að veiða og sleppa sjóbirtingi í Geirlandsá og í Vatnamótum Skaftár sem getur hafa haft áhrif til aukinnar veiði.“

Annað sem við bárum undir Magnús var að samkvæmt fregnum víða að virðist veiðimenn verða minna varir við steinsugubit á sjóbirtingum, en fyrir fáum árum voru slík bit bæði algeng og svæsin. Kvað svo rammt af að leitast var eftir því að finna hvort að kvikindið væri farið að hrygna í ám á Suðurlandi. Engin ummerki fundust um það hins vegar, en hvað segir Magnús um steinsuguna?

„Minna hefur borið á steinsugusárum, en við vitum ekki hvort það hefur áhrif, en mögulega.“