Árni Baldursson, Ásgarður, Ásgeir Ebenesar
Árni Baldursson að glíma við boltafisk í Ásgarði í fyrra. Myndina fengum við að láni af FB síðu Ásgeirs Ebenesar.

Hvaða þýðingu sem það hefur þá hefur verið lífleg laxveiði í Soginu að undanförnu og eins og svart og hvítt á móti semí-dauðanum í ánni síðasta sumar. Menn hafa verið að gera fína túra, bæði í Ásgarði og eins í Bíldsfelli. Einnnig hefur heyrst að fyrstu laxarnir séu byrjaðir að veiðast uppi við Syðri Brú.

Ásgeir Ebenesar segir frá því í FB færslum að hann hafi farið fjóra skottúra á lausum dögum í Ásgarð að undanförnu og landað alls fimmtán löxum. Líflegt sé á svæðinu og við Frúarstein hafi t.d. verið „torfa af nýgengnum smálaxi“. Það eru kröftugar smálaxagöngur sem hafa hleypt lífi í svæðið, en það eru stórlaxar þarna einnig í bland, þannig skrapp leigutakinn Árni Baldursson í skottúr og landaði tveimur sem voru áætlaðir 11 og 16 pund. Bakkinn á móti, Bíldsfellsmeginn, hefur einnig verið líflegt. Til marks um það skrakk gamli Sogshundurinn Ólafur Kr Ólafsson í tvær vaktir fyrir skemmstu og lönduðu hann og félagar hans tíu löxum, misstu slatta og lönduðu að auki öðru eins af vænni bleikju.

 Þetta eru aldeilis fínar fréttir eftir ósköpin síðasta sumar. Eftir það tóku eigendur og leigutakar sig saman og hafa verið að vinna aðgerðaráætlun um að reisa Sogið við á ný. Vonandi er að sú vinna drabbist ekki niður þó að það komi gott smálaxaskot í sumar. Þetta eru falleg tíðindi en það þarf samt að taka til í málefnum Sogsins.