Ólafur Þór t.v. ásamt eiginkonu og syni, Þórdísi og Ólafi Helga - Mynd Heimir Óskarsson

Ólafur Þór Ólafsson bóndi og veiðimaður á Valdastöðum í Kjós féll frá í morgun. Ólafur átti langa farsæla ævi. Framsýnn sem veiðiréttareigandi, farsæll sem forystumaður í Veiðifélagi Laxár í Kjós og Bugðu til fjölda ára og snillingur með stöngina þegar svo bar undir. VoV minnist hans og kveður með mikilli virðingu.

Vaðið í land með kvöldmatinn – Mynd Jón Eyfjörð

Eftirlifandi ekkja hans, Þórdís Ólafsdóttir, sem sjálf er slyngur veiðimaður, sagði okkur á sínum tíma þessa veiðisögu af kappanum, en þá var eitt árið orðið tvísýnt um þátttöku hennar í árvissum veiðidegi í Laxá í Kjós 9.september: „Ég var ófrísk af Valdísi, yngstu dóttur okkar, og allt útlit fyrir að fæðingin yrði um þetta leyti. Ég sagði Óla það alltaf, það verður 9.september, og viti menn, kvöldið áður virtist allt vera að fara í gang og ég var keyrð til Reykjavíkur. Óli varð eftir og fór auðvitað bara að veiða. Áin var í vexti og takan óvenjugóð miðað við það, hann landaði 19 löxum fyrir hádegið og ætlaði síðan að hringja í mig í hléinu, en þá var gamli sveitasíminn enn við lýði og honum var lokað milli 1 og 4. Hann fékk nú samt þær upplýsingar að hann væri aftur orðinn pabbi og með það fór hann aftur út að veiða. Áin var hins vegar kominn í svoleiðis ham að hann bætti engum fiski við, en þetta var nú orðið heldur betur flott hjá honum, 19 laxar komnir á land. Þetta hljómar kannski ekki vel í dag, en á þessum tíma var þetta ekkert þannig að karlarnir væru að skipta sér af barnsfæðingum. Það var seinni tíma mál og ég skyldi hann alveg mæta vel.“