Langá, Ragnheiður Erla Rósarsdóttir
Ragnheiður Erla Rósarsdóttir með einn af fyrstu löxunum úr Langá á opnunardaginn, en veiði hófst í ánni í morgun. Þetta er 80 cm hængur úr Bárðarbungu. Myndina tók Gústaf Vífilsson.

Langá opnaði í morgun og þar var líf og fjör. Lax víða og í sumum stöðum mikið af fiski. Alls vissumv ið af ellefu lönduðum fiskum og sex misstum hjá þeim sem í því stóðu, en það vantaði tæmandi upplýsingar frá 1-2 stöngum.

Þessar upplýsingar fengum við hjá Gústafi Vífilssyni sem er að opna ána eins og svo oft áður síðustu árin. „Við vitum um ellefu laxa og sex missta, en það vantar upplýsingar frá örfáum stöngum þannig að talan gæti hækkað. Það var víða lax, töluvert af fiski á hefðbundnum stöðum niður frá eins og í Strengjunum og á Breiðunni, mikið af laxi í Bárðarbungu og efsti laxinn sem náðist á land var í Hrafnseyri sem er töluvert ofarlega á svæðinu. Þá var sett í fisk á Kríubreiðu sem er aðeins neðar,“ sagði Gústaf. Hann bætti við að laxinn væri bæði s´tor og smár, stærstan veiddi Jögvan Hansen í Bárðarbungu, 85 cm lax og eiginkona Gústafs Ragnheiður veiddi 80 cm hæng í sama hyl.