Urriði Öxará
Risa urriði í Öxará. Mynd -gg.

Fjörið er fyrir nokkru byrjað í Öxará þar sem gestir og gangandi geta virt fyrir sér ótrúlegt sjónarspil þar sem risaurriðarnir úr Þingvallavatni fylla Öxarána til að hrygna. Mikið er af fiski núna og bætur stöðugt í.

Það er magnað að horfa á þessa fiska og meðalstærðin augljóslega á pari við laxveiðiá þar sem smálaxabrestur hefur orðið. Smæstu fiskar virðast vera á bilinu 5-8 pund, en flestir eru þeir stærri og sumir sem skoða má í nánast návígi eru nær 20 pundum en 10. Margri gömlu hængarnir eru hvítskellóttir með áflog og lífsraunir langrar ævi. VoV kíkti austur um helgina og veðrið hefði getað verið betra til myndatöku. En þetta var þó betra en ekkert. Um að gera að gleyma ekki pólaroidunum heima, í gær sást lítið án þeirra.

Hrósa verður umsjónarmönnum Þjóðgarðsins, að göngustígar hafa verið stúkaður betur af til að koma í veg fyrir að forvitnir séu að ónáða urriðana með því að birtast á bökkunum þar sem áin kvíslast. Þá eru komin upp skilti sem banna myndatökur neðan vatnsborðs. Er það einnig gert í því skini að urriðinn fái sem mest næði þessar mikilvægu vikur.