Heiðarvatn
Falleg bleikja úr Heiðarvatni, 42 cm en þær eru til mun stærri.

Já, við vísiteruðum Vesturhóp fyrr í vor og nú í vikubyrjun þoldum við ekki aðgerðarleysið og hentum okkur í Heiðardalinn og tókum nokkur köst í Heiðarvatn. Þar var aldeilis allt komið á fulla ferð, enda þarf ekkert að bíða þar eftir göngufiski, urmull af staðbundnum fiski er í vatninu og stórir í bland við smærri.

Vatnsá, Heiðarvatn
Tveir úr útfallinu, 45 og 53 cm, seinna koma svo annar 54 en það voru miklu stærri urriðar að elta seiði fram og aftur!

Við höfum oft skroppið í Heiðardalinn en sjaldnast til að veiða í vatninu. Það er fullt af fiski en við höfum alltaf verið meiri straumvatnskarlar, en þegar langt er í næsta túr þá er ótrúlega auðvelt að slá til að ákveða að rifja aftur upp vatnaveiðina. Miðja vegu norðanvert við vatnið, þegar ekið er að veiðihúsi, þarf að þvera lítinn læk sem er reyndar oft og iðulega ansi hressilegur á haustinn. Okkur hafði oft verið sagt að út af ósi lækjarins og í átt að útfalli Vatnsár, undan háum bökkum, væri einkar veiðisælt og þar væri vænstu bleikjuna í vatninu að finna. Það var því á listanum að fara á þennan stað og athuga málið. Reynsla okkar af vatninu fram að þessu var bundin við víkina þar sem SVFK var með húsin sín forðum daga og svo útfallið, þar sem Vatnsá rennur úr vatninu.

Lækjarósinn var algerlega svakalegur veiðistaður. Fljótt var ljóst að þar snérist allt um þetta: Hvað nennirðu lengi? Á einum og hálfum tíma voru ótal tökur, nokkrir misstir og tíu landaðir. Þetta voru mest bleikjur allt að 40 cm, örfáir urriðar með. Eftir því sem vaðið var lengra út, því vænni fiskar fengust. Seinna hefur okkur skilist að ef við hefðum vaðið lengra, þá hefði bleikjurnar skagað í 50 cm, þar væri djúpir pottar og stærstu bleikjurnar lúrða þar sem þeir færu að grynnast. Við reynum það næst!

Um kvöldið var ofboðsleg sýning við útfallið. Það sást reyndar vart út úr augum fyrir mývargi, en á grunnu vatni voru stórir urriðar að elta síli með fádæma bægslagangi og gusugangi. Silfruð og ljós lítil straumfluga sem við þekkjum ekki nafnið á skilaði 45, 53 og 54 cm urriðum. Við sáum miklu stærri fiska en það í þessu ati á grynningunum. Um nóttina fengum við okkur sæti á lúnum bekknum við Frúarhyl, beint niður af veiðihúsinu. Þar var sama sýniningin í gangi, en maður velti fyrir sé, daginn áður var seiðum dælt í seiðatjörn og það voru risaurriðar búnir að raða sér við útfallið úr tjörninni um leið og í Frúarhyl voru stórfenglegir eltingarleikir í boði á grunnu vatni. Þegar þar var komið sögu, veiði búin að vera geggjuð, björt faleg sumarnótt. Bara að njóta.