Adam Fijalkowski með sinn fyrsta lax, dreginn úr Eystri Rangá, 83 cm hrygna. Hann á ekki langt að sækja það, pabbi hans er Cezary Fijalkowski, einn öflugasti fluguveiðimaður landsins.

All svakaleg veiði hefur verið í Eystri Rangá að undanförnu, svo mikil að áin skyggir á önnur svæði sem einnig eru að gefa vel. Það sem vekur ekki hvað síst athygli er að metdagar eru að sjást nokkru áður en hinn hefðbundni besti veiðitími árinnar fer í hönd. Ef fram heldur sem horfir gætu sést athyglisverðar lokatölur úr ánni í haust því svo virðist sem að inn rigni bæði stór- og smálaxi.

Til að skoða þetta í nánara samhengi þá komu tveir risadagar um helgina, 149 og 176 laxar og þann 8.júlí voru komnir 667 í bók. Nú er talan búin að losa vel um þúsundið og hillir afar skjótt undir tvö þúsund.

Fyrir fremur fáum árum var komin svipuð veiði úr ánni og miðast við 8.7 og þar fyrir framan, en sá er munurinn nú og þá, að það sumar var allt saman stórlax úr flottum og öflugum smálaxagöngum og smálax gerði sig lítt gildandi það sumar sem fór ekki í neinar frægðarbækur nema fyrir hinar öflugu stórlaxagöngur. Að þessu sinni eru rífandi smálaxagöngur fyrir all nokkru farnir að streyma í ána. Samt sem áður er mjög gott hlutfall stórlaxa og margir laxar á bilinu 90 cm og upp í tæpan meter að veiðast.

Ef flett er upp á angling.is má sjá að 2007 komu 7473 laxar úr ánni og 2008 7013 stykki. Þetta eru bestu árin sem finna má á angling.is listanum og verður magnað að sjá hvort að áin nær þessum hæðum aftur.