Jónsmessustraumurinn: Hann skilaði göngum, sjáum svo hvað setur

Baldur Ólafur Svavarsson með glæsilega tveggja ára hrygnu úr Laxá í Leirársveit í morgun.

Jónsmessustraumurinn virðist hafa hleypt lífi í laxveiðiár á Vestur- og Suðvesturlandi. Þetta er jú frægur laxastraumur og þá fyrst fallast mönnum hendur ef hann skilar engu, sérstaklega þegar uppskeran fram að honum hefur verið rýr….eins og núna.

Að straumurinn stóri skili göngum er auðvitað ekki ávísun á að allt sé fallið í ljúfa löð og að héðan í frá verði allt snarvitlaust á bökkum vatnanna. En þetta gefur þó von sem sumir voru byrjaðir að missa.

Við heyrðum til dæmis í Baldri Ólafi Svavarssyni sem er staddur í Laxá í Leirársveit. Þar byrjaði afar rólega á dögunum, en Baldur sagði í dag:  „Mjög líflegur morgun. Sett í þrjá snemma og tvo til áður en vakt ar á enda . Allt á neðstu stöðunum. Tveir komu úr Fossinum, tveir úr Vaðstrengjum  og einn í Grettisstreng, (krókudílnum).

Það fylgdi sögunni að lax væri að ganga af nokkrum krafti. Þá fréttum við af góðum dögum í Brennunni, Eliðaánum, Norðurá og víðar. Í Brennunni var t.d. tuttugu laxa dagur þó að ekki tækist að landa nálægt því öllum þeirra, en að setja í tuttugu laxa á einum degi eftir þá hryggð sem verið hefur, er bara háu ljósin við enda gangnanna.