Svört Frances. IO eiga þessa mynd.

Veiðileyfasalar eru að upplifa það hin síðari misseri að illa gengur að selja laxveiðileyfi. Þetta á mögulega ekki við um þá alla, en flestir þeirra sem VoV hefur hlerað taka undir þetta og segja sölu laxveiðileyfa vera “mikið hark,” eins og einn komst að orði.

“Hark”, “þungt” og “erfitt” eru algeng orð sem féllu í samtölum VoV og veiðileyfasala og lýstu landslaginu. Það er ekki ein fullkomin skýring á þessu ástandi, heldur samansafn nokkurra samverkandi þátta. Við reifum þá hér, alls endis óþarfi að nafngreina hvaða veiðileyfasalar framvísuðu upplýsingunum.

Fyrst og fremst er það gengi íslensku krónunnar sem hefur valdið samdrætti í sölu veiðileyfa til útlendinga. Aðallega Breta með sitt veika Pund, en einnig fleiri þjóða veiðimanna. Þá hefur allt umfang veiðitúrsins hækkað svo um munar í verði, menn eru ekki aðeins að kaupa veiðileyfið heldur einnig flug, flutninga innanlands, gistingu utan veiðitúrsins, mat og uppihald að ógleymdum leiðsögumanninum, en laun til þeirra hafa hækkað mikið, sumrin 2010 til 2011 kostaði leiðsögumaðurinn t.d. 300 til 350 dollara, en í dag leggst hann á 600 dollara.

Friggi, Baldur Hermannsson.
Fallegur lax með Frigga í kjaftvikinu..

Samhliða þessu hefur veiði dregist saman, eða í það minnsta reynst óáreiðanleg, sbr að síðasta sumar var lakara en menn væntu og þá hafa menn upplifað arfaléleg laxasumur, 2012 og 2014 standa þar uppúr. Vissulega góð ár innan um, en algjör óáreiðanleiki samt sem áður.

Dæmigerð staða er erlendur veiðimaður eða hópur sem hefur komið til landsins í nokkur ár og gefið til kynna að dæmið verði endurtekið 2018. Hann er því inni í sölukerfi leigutakans með sína daga og stangir. Þannig líður haustið, bókunin stendur en engin staðfesting komin. Þegar komið er fram í janúar er farið að hreyfa við því og þá er hik á viðkomandi, sem biður um 1-2 vikur. Eftir þrjár vikur er aftur haft samband og þá tilkynnir viðkomandi að ekkert verði af Íslandsförinni að þessu sinni. Þá eru menn komnir fram í febrúar og farnir að svitna með lausar stangir á dýrasta tímanum.

Íslendingar sem kaupa dýru veiðileyfin eru ekki stór hópur og þessi hópur hefur upplifað síðustu vikurnar að fá hverja upphringinguna af annarri frá veiðileyfasölum sem láta vita að það hafi losnað vika, eða losnað stöng, eða losnað stangir. Ísendingarnir hafa mögulega áhuga, en ekki á þeim verðum sem sett hafa verið upp. Þá eru einnig brögð af því að þegar leitað hefur verið eftir staðfestingu á bókun, hafi viðkomandi verið búinn að festa sér annað og ódýrara.