Grímsá
Við Laxfoss í Grímsá. Myndin er frá Hreggnasa.

Grímsá opnaði í morgun og fór vel af stað. Skilyrði góð og lax víða. Alls var landað 17 löxum í dag, en skv upplýsingum Jóns Þórs Júlíussonar var lokatalan ekki alveg á hreinu því að það vantaði einhverjar stangir í hús þegar við höfðum samband.

„Þetta er eitthvað um sautján fiskar í dag, en ég er að bíða eftir lokatölu. Annað eins af laxi tók en slapp. Það er mikið líf, sérstaklega á neðstu svæðum árinnar, frá Laxfossi og þar niður af, þar er mikið að gerast og þar voru flestir laxarnir dregnir á land,“ sagði Jón Þór. Samkvæmt upplýsingum var aflinn blandaður, vænir tveggja ára laxar og smálaxar, báðir árgangar fallegir og vel haldnir.