Góðar smálaxagöngur…en minna af stórlaxi

Fallegur lax...
Fallegur lax

Það eru að sjálfsögðu margir að spá í því hvernig laxagöngur verða í sumar. Það hafa verið svaðalegar sveiflur síðustu ár, lélegt, frábært, glatað, gott og svo framvegis. Óvissan er alltaf til staðar. En hvað segir meistari Guðni Guðbergsson?

„Á síðustu árum hafa komið fram miklar sveiflur í laxveiði hér á landi. Í þeim árum sem fiskgengd hefur verið minnst hafa seiðaárgangar verið litlir í kjölfarið. Til viðbótar þá fór meðalvatnshiti sumarmánaðanna júní til ágúst lækkandi frá 2003 til 2015 en tvö síðustu sumur hafa þó verið hlýrri. Lækkandi vatnshiti kom fram í minni seiðavexti og hækkandi gönguseiðaaldri. Við það lengist dvalartími seiða í ánum og þar með kynslóðatími laxa. Vorið 2002 tóku Veiðimálastofnun, Landssamband veiðifélaga og Landsamband stangveiðifélaga höndum saman og hvöttu til þess að stórlaxi (laxi með tveggja ára sjávardvöl) yrði sleppt í stangveiði. Mörg veiðifélög hafa síðan sett þær takmarkanir í veiðireglur að sleppa beri laxi yfir 70 cm. Þessar aðgerðir komu í kjölfar þess að stórlaxi hafði fækkað nær samfellt frá því um 1980 en fyrir þann tíma hafði svipaður fjöldi smá- og stórlaxa veiðist í íslenskum ám. Nýlegar rannsóknir á erfðafræði laxa hafa sýnt að það hvort laxar koma eftir eitt ár í sjó eða tvö erfist á einu geni en tjáning þess er öðruvísi hjá hrygnum en hængum. Þannig koma hrygnur sem hafa arfhreint stórlaxagen eftir tvö ár í sjó og arfblendnar hrygnur einnig. Aftur á móti er tjáning gensins í hængum þannig að einungis laxar með arfhreins stórlaxagen koma eftir tvö ár í sjó en arfblendnir eftir eitt ár í sjó. Á síðustu árum hefur yfir 70% stórlaxa og yfir 40% smálaxa verði sleppt úr stangveiði þegar litið er til landsins í heild en þetta hlutfall er hærra í mörgum ám. Oft hefur frumkvæði til sleppinga komið frekar frá leigutökum og veiðimönnum en veiðiréttareigendum sem er umhugsunarefni þar sem veiðiréttarhafar (veiðifélög) bera lagalega ábyrgð á því að veiðinýting sé sjálfbær. Vísbendingar eru nú um að hlutdeild stórlaxa (tvö ár í sjó) af hverjum gönguseiðaárgang sé að vaxa á ný eftir langvarandi lægð. Mögulega eiga sleppingar á stórlaxi í veiðinni þátt í því sem líklega verður hægt að rannsaka betur í framtíðinni. Fjöldi stórlaxa er mismikill á milli landshluta og á milli áa. Þannig er hlutfall stórlaxa hærri í ám á Norður- og Austurlandi en á Suður- og Vesturlandi. Sterk tengsl eru á milli veiði á smálaxi (eitt ár í sjó) og stórlaxi árið á eftir. Sleppingar stólaxa hafa almennt leitt til þess að hrygningarlöxum hefur fjölgað einkum á norðan- og austanverðu landinu og þar með hefur fjöldi þeirra hrogna sem hrygnt er einnig aukist. Í kjölfar þess hefur seiðaþéttleiki eftir hverja göngu farið vaxandi. Vegna þess hve miklar breytingar hafa verið í laxgengd á síðustu árum er erfiðara en oft áður að áætla þann fjölda smálaxa sem koma til með að ganga í árnar sumarið 2018. Vorið og sumarið 2016 sem og 2017 voru fremur hlý bæði í ám og í sjó. Ætla má að veiði á smálaxi verið almennt nokkuð yfir meðallagi en að stórlaxar verði undir meðaltali í kjölfar minni gengdar smálaxa á síðasta sumri.“