Gunnar Örn Pedersen, Þingvallavatn, urriði
Einn af mörgum stórum sem dregnir hafa verið úr Þingvallavatni að undanförnu. Þessa mynd fengum við af FB síðu Gunnars Arnar Pedersens

Veiði í Þingvallavatni hefur gengið með afbrigðum vel og menn hafa jafnvel verið að gera góða hluti í kuldakastinu síðustu daga. Sögusagnir eru þó um talsverða urriðaveiði þar sem hinn bannaði makríll er jafnvel notaður. Og ekki er verið að hlífa þeim fiskum sem makrílinn taka, svo mikið er víst.

Okkur hefur verið tíðrætt um flotta veiði á ION svæðunum, auk Villingavatnsárós, Kárastaða og jafnvel í Þjóðgarðinum þar sem urriðar hafa einnig gefið sig. Margir sem við höfum hlerað hafa sagt að víða verði menn varir við umtalsvert magn af fiski. Þá voru menn farnir að fá urriðann á þurrflugur á ION svæðunum fyrir um viku síðan þegar hlýindi höfðu staðið um nokkurt skeið. Er það óvenju snemmt, en hefur ábyggilega gengið til baka allra síðustu kuldadaga.

En menn segja einnig aðra sögu. Veiðimaður einn sem við þekkjum og skreppur af og til í vatnið sagði að sögusagnir gengju um að innlenndir sem erlendir menn væru að veiða með makríl á öðrum líklegum svæðum í vatninu og eins væru sumir þeirra að nota báta. Það væri „eins og villta vestrið“ þarna á stundum eins og hann orðaði það og kallaði eftir því að Veiðifélag Þingvallavatns sameinaðist um „eitt öflugt auga“, þ.e.a.s. eftirlitsmann sem passaði upp á vatnið, því slíkt vantaði, en gæti skipt sköpum í eftirliti með urriðadrápi. Sjálfsagt væri lítið við því að segja þar sem veitt væri þar sem engar reglur gilda um sleppingu urriða, en þegar notaður er makríll, sem sögur segja að sé gert, þá er verið að brjóta reglur.

Þetta voru athyglisverðir punktar sem að viðmælandi VoV bar fram og í fljótu bragði verður ekki komið auga á það hvers vegna slík gæsla sé ekki löngu komin til. Urriðastofninn hefur verið í örum vexti síðustu ár og það hefur hjálpað mikið til að víða í vatninu er nú aðeins seld fluguveiði með sleppiskyldu. En ef að enn er verið að veiða urriðann ólöglega þá verður að uppræta það.