Hitabylgjan setur svip sinn á opnun á Norðausturlandi

Uppi í Gljúfri er áin hreinni og fallegri, hliðarárnar eins og Sunnudalsá eru að lita hana og belgja út neðar. Mynd Ari Þórðarson.

Það hefur verið yfir höfuð rólegt í Vopnafirðinum. Þar var búist við betri opnun en raun hefur borið vitni…..en árferðið lætur ekki að sér hæða. Hitabylgja, sunnan rok og hitinn vel yfir tuttugu stigum. Árnar eru bakkafullar, kaldar og skolaðar. En þegar það er allt tekið saman þá er upphafið ekki svo slæmt.

Helga Kristín, nýi sölustjóri 6RP sem sér um Hofsá og Selá sagði að einn hefði bæst við eftirhádegið, fjórir fyrir hádegið. Hún fór ekki út í þá sálma að geta veiðistaðar eða frekari útlistinga, enda óþarfi, áin var minna stunduð í rokinu og grugginu.

Ari Þórðarson, okkar maður á bökkum Hofsár sagði að síðdegisvaktin í gær og morgunvaktin hefðu verið róleg, menn hefðu vissulega sett í laxa, en takan verið grönn og ekki hefði verið bætt við þá sjö laxa sem komu á land á tveimur fyrstu vöktunum. „Við erum búnir að setja í 5 eða 6, en þeir taka grannt og þeir hafa hrist sig af,“ sagði Ari í samtali við VoV.

Og talandi um Norðausturhornið, þá heyrðum við í Þresti Elliðasyni leigutaka Jöklu, en meinining var að opna hana í dag: „Það var útilokað, hún var voðaleg og gruggug. Viðskiptavinir okkar enduðu allir niðri í Fögruhlíðarósi þar sem bleikjan hefur verið að gefa sig. Það verður þannig líklega næstu daga, enda er þessi hitaspá viðvarandi næstu daga,“ sagði Þröstur. Enginn lax veiddist sem sagt í Jöklu í dag. Og: Við heyrðum í Hilmari Hanssyni sem er í Sandá í Þistilfirði. Þar er það sama uppi á teningunum, áin veltur fram í flóði og menn hafa ekki enn fundið laxinn.