Skagaheiði, Hjörleifur Steinarsson
Falleg bleikja í háfnum.

Nýir veiðistaðir eru stöðugt að detta inn enda gengur nú hratt á vorið og sumarið á næsta leyti, og nú síðast má nefna Hlíðarvatn í Selvogi og urriðasvæðið efst í Elliðaánum. Fín tíðindi hafa borist af báðum svæðum, ekki hvað síst í Hlíðarvatninu.

Það má oft finna skemmtilega fréttamola á veiðileyfavefnum www.veida.is og sú var raunin er við litum þar við, því þar var að finna fréttaskot frá opnun Hlíðarvatns sem bar uppá verkalýðsdaginn 1.mai. Greinir vefurinn frá því að kalt hafi verið í veðri og gengið á með éljum, en verið bjart og fallegt inn á milli. Uppselt hafi verið í vatnið, en menn misduglegir að standa vaktina í rysjóttu veðrinu. En veiði hefði verið góð, skráðar hefðu verið 60 bleikjur í veiðibók Ármanna og 12 til viðbótar í veiðibók Árbliks.

Steingrímur Ólafsson, Elliðaárnar
Steingrímur S. Ólafsson með geggjaðan urriðahæng úr Elliðaánum í gær.

Þrjú önnur veiðihús eru á svæðinu og höfum við að auki heyrt að veiðimenn á vegum SVFH hefðu verið með góða veiði, en vantar þó tölu yfir það. Nefnir veida.is að skráðar hafi verið bleikjur allt að 60 cm og það eru engar smá kusur, 5-6 punda skrattar.

Þá var urriðasvæðið efst í Elliðaánum opna þann 1.mai og var kuldalegt á vettvangi eins og annars staðar síðustu misserin. Samt voru menn að fá‘nn, eins og t.d. Steingrímur Sævarr Ólafsson sem landaði fjórum í gær, þ.á.m. þeim sem myndin er af og var 64 cm tröll. Fékk Steingrímur alla sína fjóra á litla Phesant tail veidda andstreymis, sem virðist vera eitrað í vor sem fyrrum.