Einn flottur sem gein yfir Black Ghost sunurst

VoV hefur lengi haft mikinn áhuga á sjóbirtingsveiðum síðsumars og um haust í vatnamótum Hvítár í Borgarfirði. Í gegnum árin höfum við mest athugað Straumana og Brennutanga, en í sumar og haust bættum við Skugga við, en þar fellur Grímsá í Hvítá.

Sjóbirtingur fer að koma á þessi svæði strax í júlí, en er þá nánast sem meðafli því laxinn er þá í essinu sínu, stoppar í þessum skilum á leið í Bergvatnsárnar. En þegar laxagöngur eru fremur veikar eins og í sumar, þá er sjóbirtingurinn í essinu sínu og oft að bjarga túrum. Þetta sést best á veiðitölum að þessu sinni, laxveiðin í dræmari kantinum, en fínar tölur af sjóbirtingi.

Neðsti hluti veiðisvæðis Skugga, Norðurkot við höfðann og Þvottaklöpp ber í litla hólmann lengst til vinstri. Mjög gjöfulir staðir þegar fiskur er að ganga.

VoV leit við bæði í Straumum og Skugga í lok síðustu viku og fram á helgina. Sjóbirtingar í bók þar voru 324 og margir vænir, 50 til 60 cm og stöku fiskur stærri. Laxarnir hins vegar aðeins 190 sem var þó stór framför frá 2019. Á fyrri vaktinni setti VoV í fimm og landaði tveimur, slatti af fiski að ganga og mest í Bugtinni. Á seinni vaktinni var varla stætt í rokinu og lítið að frétta þá

Vaktirnar við Skugga voru litaðar af erfiðum aðstæðum, fyrst foráttu skítviðri með gruggi og vatnavöxtum, síðan svo stilltu og fallegu veðri að engu tali tók og allt svo tært að það sá á hvern stein í botni í logninu og sólskininu. En þarna var vottur af fiski og alls voru skráðir 255 birtingar og eins og í Straumunum voru margir vænir. Laxarnir voru hins vegar óvenju fáir, 59 stykki sem endurspeglar fremur veikar göngur í Grímsá þetta árið.

En bæði eru þessi svæði óhemju falleg með veiðivon og víðsýni til fjalla og ríkulegu fuglalífi, m.a. hnitaði konungur fuglana yfir höfuðleðrum VoV á meðan á dvölinni við Skugga stóð.

Aðbúnaður fyrir veiðimenn eins og best verður á kosið, tvö hús á hvorum stað og rauanar gildir það sama um þriðja svæðið, Brennuna, þar eru húsin einnig tvö en þar er veitt langt fram í september. Lítið veiðist þar af laxi nú um stundir, en sjóbirtingstölur frá 2.9 eru 154 birtingar