„Bara geggjað gaman“

Grzegovs Loszewski með einn rígfullorðinn úr Vatnamótunum.

Núna er skollin á hrina af haustlægðum sem valda vatnavöxtum og fleiri erfiðleikum á sjóbirtingsslóðum. Inn á milli koma glufur og þá hefur komið í ljós að mikið er að ganga af birtingi þessa daganna. Enda hans tími kominn og stórstreymt að auki. Við heyrðum í Cezari Fijalkowski sem hóf veiðar með félögum sínum í Vatnamótunum s.l. laugardag. Þar eru menn kátir

Cezari búinn að hala einn að sér, bara eftir að losa úr honum sleppa….
„Vid erum 5 manna hópur sem hefur tekið viku í Vatnamótunum ár eftir ár. Við byrjuðum s.l. laugardag. Það er mikið vatn, sem er gott. Það er mjög mikið af fiski og alltaf að bæta í, mikið af fiski að ganga. Við erum búnir að fá marga frá 70 cm og upp í 90 cm-plús. Bara geggjað gaman og auðvitað bara fluguveiði,“ sagði Cezari.
VoV hefur síðustu daga birt fréttir bæði frá Eldvatni og Geirlandsá. Þær fregnir hafa allar verið á líkum nótum, þetta stefnir í að vera stórgott sjóbirtingsár, þ.e.a.s. ef að skilyrði leyfa, en þau eru alls konar á haustin eins og allir vita.