Engar smá græjur og tilbúnar til notkunar. Þarna er búið að fletta spýtunum ofan af sem áttu að hylja allt klabbið.

Ásgeir Heiðar, hinn kunni veiðileiðsögumaður og áhugamaður um Elliðaárnar setti inn status á FB síðu áhugamanna um árnar, þar sem hann greinir frá því að hann hafi fundið þorskanet, tilbúið til notkunar, við veiðistaðinn Hundasteina í Elliðaánum.

Á meðfylgjandi mynd sem Ásgeir birti á umræddri síðu má sjá að þessu er snyrtilega komið fyrir, en við fundinn hafði spýtum verið raðað ofaná netið til að minna bæri á því hvað þarna væri á ferðinni. Ásgeir sagði: „Að vakta árnar er ekkert grín, en þegar maður finnur heilt þorskanet falið í skóginum við Hundasteina…þá fallast manni hendur.“

Heilmikil umræða er um málið á umræddri FB síðu og þar greinir Haraldur Eiríksson sölustjóri hjá Hreggnasa frá því að snemma morguns í júlíbyrjun 2013 hafi menn komið að áþekktum veiðigræjum í sjálfum Sjávarfossi. Taldi hann að þeir sem stóðu að því hefðu orðið fyrir styggð um nóttina og forðað sér, en skilið netið eftir í ánni.

Veiðiþjófnaður hefur verið vaxandi vandamál við Elliðaárna, ekki bara í sumar, heldur síðustu sumur. Óvenjumikið hefur verið um það í sumar samt sem áður og hefur orðið til þess að gæsla við árnar hefur verið aukin. Mest er um að veiðimenn séu að kasta í hylji án leyfis og ekki álgengt að þegar athugasemdir eru gerðar, þykist þeir lítt geta tjáð sig á ensku eða íslensku og veifa Veiðikortinu til að undirstrika rétt sinn. Minna hefur verið um brot með netum, en þetta atvik veltir upp þeirri spurningu hvort að meira sé um slík brot en menn ætla? A.m.k. er hægt að gera mikið rúmrusk í litlum og gjöfulum veiðistað eins og Hundasteinum, með græjum sem þessum og þegar búið er að hreinsa upp, þá er stutt niður í Árbæjarhyl og stutt upp á Hraun.