Brynjudalsá
Fallegur smálax. Mynd -gg.

Fram kemur í fréttum hjá SVFR, að annað sumarið í röð verður engin veiði í Andakílsá í Borgarfirði, en eins og menn muna þá var þar í fyrra dæmalaust mengunarslys, gríðarlegu magni af seti og aur var hleypt í ána úr uppistöðulóni Andakílsvirkjunar. Áin fylltist af drullu.

Eðlilega var áin friðuð fyrir veiði í fyrra og sérfræðingar unnu bæði að hreinsun og athugunum á lífríkinu sem fékk hressilega á baukinn. Þar sem fyrir liggur að áin verður lokuð enn um sinn 2018 lék VoV forvitni að vita hver staðan er og hvað er framundan með þessa skemmtilegu laxveiðiá. Við fengum smá skýrslu frá Árna Friðleifssyni formanni SVFR og hér er hún:

„Staðan á Andakílsá er í stuttu máli sú að það náðust nokkrir tugir af klaklaxi í ánni í haust  sem eru ágæt niðurstaða. Veiðifélagið er með áætlun um að reyna að hreinsa enn betur aurinn í vetur, fyrir vorflóðin. Það er í sjálfu sér ekkert hægt að segja á þessari stundu hvenær Andakílsá verður veiðihæf á ný, en það er metið með vísindamönnum og öðrum hagsmunaaðilum. Við hjá SVFR erum í sambandi við Veiðifélag Andakílsár og vinnum þetta mál með þeim.“

Sem sagt lítið að frétta, annað en að frekari hreinsun er fyrir dyrum og það gekk nokkuð af laxi í ána. Sem er gott. Þá er hægt að „starta“ henni aftur.