Baldur Líndal með stórlax úr Víðidalsá. Baldur var leiðsögumaður Stewarts og félaga. Myndin er tekin við Harðeyrarstreng.

Hið Íslenska bókmenntafélag hefur gefið út bókina Íslenskar veiðiár eftir R.N.Stewart hershöfðingja, í íslenskri þýðingu Einars Fals Ingólfssonar ljósmyndara og blaðamanns. Á frummálinu heitir bókin Rivers of Iceland og kom út um miðja síðustu öld. Hefur verið illfáanleg, en kom út á íslensku árið 2011.

Einar Falur hefur lagt í gríðarlega rannsóknarvinnu vegna bókar þessar, því það er langt frá því að hann hafi einfaldlega tekið bókina og snarað henni. Hann kynntist fjölskyldu hins skoska Stewarts og dvaldi um skeið á óðalssetri hennar og fékk þar að gramsa í gömlum gögnum og myndasöfnum. Þar varð Einar margs vísari og fann m.a. áður óþekktar Kjarvalsmyndir, en það er önnur saga. Uppskera þessa grúsks var m.a. að finna fjölda áður óbirtra ljósmynda sem Stewart tók á árangri dvöl sinni hér á landi, meira og minna á bökkum íslenskra laxveiðiáa.

Hér er Stewart sjálfur með lax úr Bænhúsahyl í Straumfjarðará.
Hér er Stewart sjálfur með lax úr Bænhúsahyl í Straumfjarðará.

Við kíkjum hér á kafla úr bókinni, sá er númer 18 og heitir: Íslenskir veiðimenn.

„Ánægjulegt er að sjá hvernig stangveiðin hefur þróast sem íþrótt meðal  Íslendinga. Þegar ég fyrst heimsótti landið árið 1912 hafði enginn Íslendingur sem ég heyrði um veitt fisk íþróttarinnar vegna, nema kannski nokkrir strákar. Að hluta var þetta vegna þess að fáir áttu tíma aflögu, en líka vegna þeirrar almennu skoðunar að fiskur væri matur og því minni tími sem færi í að sækja mat fyrir heimilið, þeimur meiri tími væri til að sinna öðrum og meira aðkallandi vandamálum. Þess vegna var netið hið eina sjálfsagða veiðitæki fyrir fisk.

Litið var á erlenda stangveiðimenn sem furðufugla. Íslendingum fannst það furðuleg staðreynd að þeir væru reiðubúnir að eyða talsverðu fé, og tíma að auki, í að stunda endurtekningarsama og frekar þreytandi iðju, og skemmta sér við það.

Það er algjörlega að þakka breskum stangveiðimönnum sem heimsótt hafa landið að íþróttin hefur nú náð svo varanlegu taki á hugum Íslendinga. Í dag (1947) er mér sagt að yfir áttahundruð Íslendingar séu reyndir og ástríðufullir stangveiðimenn.

Þar sem þeir eru orðnir tiltölulega vel efnaðir þá greiða þeir háa leigu fyrir árnar og leggja stund á íþróttina af óvæntum ákafa. Á síðustu árum hefur orðið sífellt erfiðara að finna veiðiá sem ekki er leigð heimamönnum. Sökum ýmissa efnahagslegra ástæðna hefur verið lélegt framboð á stangveiðibúnaði í verslunum í Reykjavík. Kapp íslenskra veiðimanna er slíkt að þeir reyna að kaupa veiðarfærin af erlendum veiðimönnum sem koma til landsins. Mér hafa verið boðin fjörutíu pund í veiðistöng sem var ekki fjögurra punda virði. Ekki er rétt að selja búnað á þennan hátt, það væri misnotkun á gestrisni. Íslenskir tollverðir fara mjúkum höndum um erlenda veiðimenn og jafnvel þótt þa væri ekki illa meint, þætti mér það dónalegt og óviðeigandi þakkir fyrir gestrisnina að brjóta reglurnar á þennan hátt. Þegar ég sný aftur heim á haustin, þá kaupi ég hinsvegar oft og sendi þau veiðarfæri sem íslenskir vinir mínir hafa hug á að eignast. Þá eru engar reglur brotnar og allir una glaðir við sitt.

Sumir Íslendinganna hafa orðið mjög góðir stangveiðimenn og eru miklir kunnáttumenn um allt sem viðkemur náttúrunni. Það er eðlilegt þar sem margir þeirra hafa verið aldir upp í sveitunum við árnar og búa yfir þroskaðri athyglisgáfu. Hættir fiskanna voru fljótir að lærast og aðferðir við veiðarnar heimatilbúnar, en síðan hafa þeir lært af erlendum veiðimönnum. Þeir standa nú fyrir sínu í hvaða félagsskap stangveiðimanna sem er.

Það fyrirkomulag hefur færst í vöxt að félög manna leigja árnar, koma upp aðstöðu á bökkunum, ráða veiðiverði, ráðast í seiðasleppingar og almennt séð fara þessi félög vel með árnar.

Kristján Einarsson að veiðum í Hrútafjarðará.
Kristján Einarsson að veiðum í Hrútafjarðará.

Eina gagnrýnin sem ég verð að koma á framfæri er að jafnvel enn í dag freistast of margir Íslendingar til þess að láta sölu á aflanum greiða allan kostnað við veiðna. Til að geta notið íþróttarinnar til fullnustu verður algjörlega að eyða þeirri hugmynd að hægt sé að láta íþróttina „standa undir sér“. Ef sérhver fiskur sem veiðimaður missir kallar fram í hugann tap hans í markaðsvirði, þá er hann enginn stangveiðimaður.

Margir Íslendingar hugsa ekki þannig. Sumir sem ég þekki eru miklir íþróttamenn og kunna vel að meta öll þau gæði sem fylgja því að reyna sig við bráð.

Ég hef fylgst með mörgum Íslendingum við veiðar og hef lagt mig fram við að hjálpa þeim framhjá mörgum þeim hindrunum sem mæta byrjandanum. Ég hef notið þess þegar þeim gengur vel og deilt vonbrigðunum þegar þeim mistekst, líkt og nýlega kom fyrir einn vin minn. Hann var við veiðar síðasta daginn af stuttu sumarfríi. Þegar ég kom á staðinn hafði hann fest í mjög góðum fiski þannig að ég hinkraði við til að aðstoða hann, ef hann þyrfti á aðstoð að halda. En af því varð ekki því það lak úr fiskinum. Vinur minn leit á mig dapur í bragði og sagði, „Íslenski laxinn er eins og íslensku stúlkurnar, meira að segja þegar þú kyssir þær veistu ekki hvort þeim sé treystandi.“ Ég tel mig vita hvað hann átti við en í íslensku getur merkingin verið önnur og þetta var sérkennileg líking að grípa til. Ég gat ekki annað en velt fyrir mér hvernig hann bæri sig að við veiðar í fágaðri vötnum.

Íslendingar hafa enn ekki lært að veiða á stöng á fínlegan hátt. Ekki þarf að fara lengra en í veiðivöruverslanir í Reykjavík til að átta sig á þeirri staðreynd. Þar er ekki boðið upp á neinar fínlegar veiðistangir, en augljóslega væri boðið upp á þær ef eftirspurn væri fyrir hendi. Ég býst við að þessi þungu veiðarfæri sé eðlileg arfleifð maðkaveiðinnar. Í mörgum tilvikum voru engin veiðihjól á gömlu stöngunum. Þeir veiddu með línu festa fremst á stangarendann og síðan var það bara gamla góða reiptogið. Stöngin og línan voru það sterk – og í raun regla að laxinn væri búinn að gleypa krókinn af stærð 3/0, að ekki var mikil hætta á að missa hann við átökin nema veiðarfærin væru eitthvað léleg. Þau voru hönnuð og sett saman til að mæta þessum aðstæðum. Enginn fiskur undir fjórtán pundum átti nokkurn möguleika þegar öngullinn var kominn niður í kok. Eina ástæðan til að hafa línuna langa var að tryggja að maðkurinn næði á þann stað í ánni þar sem laxinn lá, án þss að veiðimaðurinn þyrfti að fara of nálægt honum.

Vitaskuld var aldrei veitt í fjölda hylja stærri ána, enda var það heldur ekki hægt með þessum aðferðum og þessum veiðarfærum, en látið ykkur ekki detta í hug að þessi tækni hafi ekki virkað. Ég heyrði af tveimur tilfellum þar sem svona veiðarfærum var beitt. Í annað skiptið veiddi maðurinn fjörutíu laxa á einum morgni en hinn veiddi tuttugu laxa og sextán bleikjur á einum degi. Seinna tilvikið var í ánni sem ég leigi núna og átti sér stað fyrir um fjörutíu árum. Sá sem var þar að verki gaf mér sjálfur upp þessar tölur og jafnvel þótt hann hafi ýkt frásögnina eitthvað þar sem langt var um liðið, þá hafði hann án efa átt eftirminnilegan dag við ána.

Afli úr Hrútunni, stórlaxar, smálaxar og stórar sjóbleikjur. Veitt á einu síðdegi í ánni!
Afli úr Hrútunni, stórlaxar, smálaxar og stórar sjóbleikjur. Veitt á einu síðdegi í ánni!

Íslendingar nota sjaldan ífæru eða annað viðlíka áhald til að auðvelda löndun á fiski. Þeim finnst það allsendis óþörf tól og að þau skaddi iðulega annars góða fiska.

Það er vissulega rétt en þeir staðir eru til að þegar veitt er á flugu er engin leið að landa þar fiski án ífæru. Ef Íslendingur kemur að hyl þar sem ekki eru aðstæður til löndunar þá sleppir hann því að veiða þar.

Þetta verður skiljanlegt þegar menn hafa séð til Íslendings fást við fiska á erfiðum stöðum. Ef hann veiðir með maðki þá lætur hann tauminn vera alveg slakan og hefur engar áhyggjur af fiskinum, þar sem hann veit vel að krókurinn er vel fastur langt niðri í koki fórnarlambsins. Veiðarfærin eru mjög sterk þannig að hann getur vel leyft sér að hirða ekkert um fiskinn sem hefur tekið maðkinn fyrr en hann hefur komið sér fyrir á rétta staðnum til að fást við hann. Hversu langan tíma sem það tekur, þá er það ekki fyrr en veiðimaðurinn er kominn á staðinn þar sem hann ætlar að landa fiskinum að hann herðir tökin og finnur þá að allt er eins og það á að vera.

Í fluguveiði er hægt að gefa línuna slaka, en þó aðeins sem örvæntingarráð þegar reynt er að fá fisk sem hefur tekið fluguna til að vera kyrr í hyl sem hann vill steypa sér niður úr. Það er ekki hægt að mæla með þessu nema ef ekkert annað er til ráða, því ekki er á það treystandi að fiskurinn sé svo vel tekinn að ekkert nema skurðaðgerð muni losa járnið. Í rauninni má lýsa veiðarfærum íslenskra maðkaveiðimanna sem ífærum með agnhöldum á mjúku skafti – en þeir sem ég þekki nota þessi áhöld þó ekki til að húkka fiska.

Mér var sögð all fáranleg saga sem, ef hún er sönn, lýsir vel viðbrögðum Íslendingsins þegar hann hefur sett í fisk.

Sjávarfossinn í Straumfjarðará, myndin tekin frá austurbakkanum, sem er fremur sjaldséð sjónarhorn á íslenskum veiðimyndum til margra ára.
Sjávarfossinn í Straumfjarðará, myndin tekin frá austurbakkanum, sem er fremur sjaldséð sjónarhorn á íslenskum veiðimyndum til margra ára.

Sagan segir af tveimur Íslendingum sem voru að veiða í Brúarhylnum í Straumfjarðará. Þar sem kominn var hádegisverðartími þá hætti annar veiðum og fór að undirbúa matinn. Hann byrjaði á því að kveikja upp á prímusnum. Hann var með afskaplega gróskumikið alskegg og svo vildi til að félaginn setti í fisk rétt í þann mund að loginn var að ná sér á strik. Sá með skeggið hallaði sér fram til að fylgjast með átökunum og var svo óheppinn að reka loðinn kjammann inn í logann, með skelfilegum afleiðingum. Hann öskraði af reiði og sársauka og þegar veiðimaðurinn heyrði til hans þá hugsaði hann sig ekki lengi um heldur lagði niður stöngina, hljóp til og kastaði prímusnum og þeim skeggjaða í ána, sneri aftur að veiðistönginni, landaði fiskinum og allt var komið í samt lag. Ég get ekki staðfest að sagan sé sönn en ef svo er, þá sýnir hún að það skiptir íslenska veiðimenn litlu máli að hafa línuna strekkta.

Eitt sinn hafði ég tækifæri til að bjóða gömlum vini í nokkurra daga veiði. Hann var ekki íslenskur heldur norskur og hafði um langt árabil verið skipstjóri á hvalveiðiskipi. Þar af hafði hann verið í þrjátíu ár við veiðar við Suðurskautslandið og heillandi var að heyra margar af frásögnum hans frá þeim tíma. Hann var sérlega kappsamur stangveiðimaður og ég var því mjög ánægður með að geta boðið honum til veiða. Sem laxveiðimaður var tækni hans nokkuð grófgerð en ég býst við að það að hafa eytt ævinni við hvalveiðar kenni mönnum að gefa fiski engan slaka. Vinur minn virtist líta svo á að engum fiski undir tuttugu tonnum að þyngd ætti að gefa neitt svigrúm. Það var frekar óheppilegt því ekki einu sinni veiðarfærin sem hann notaði voru undir slíka meðferð búin. Engu að síður óska ég þess og vona að hann hafi notið sín við veiðarnar, en það hlýur að vera fyrsta markmið sérhvers veiðimanns.

Íslendingar notast við íslensk pund þegar þeir vega fiska sína, en slík pund eru hálft kíló eða 1,1 pund eins og við þekkjum þau. Þegar komið er á nýtt veiðisvæði og veiðimanninum er sagt hver meðalþungi aflans sé, þá er frekar ánægjulegt að geta bætt 10% við okkar þyngdareiningu.

Þó það sé nú frekar tilgangslaust að leggja það til, þá velti ég því oft fyrir mér hvort við stangveiðimenn séum að gera rétt í því að nota þyngd sem mælikvarða á þá fiska sem við veiðum. Reikningslega er massi vissulega grundvallarmælieining, en við erum ekki fiskkaupmenn og vogin getur verið sálarlaust áhald, nema þá í þeim tilvikum þar sem hún ræður ekki við að vikta ákveðna fiska. Hve ánægjulegt, en þó sjaldgæft, er það ekki að geta snúið sér að nærstöddum og sagt: „Vogin mín ræður ekki við hann.“