Stórlax, Mynd Einar Falur
Stórlax. Mynd Einar Falur

Sogið er nú orðið að nánast hreinni „veitt og sleppt“ veiðislóð eftir að SVFR setti slíkar reglur á svæði sín í ánni. Hrun hefur verið í Soginu og aðgerða þörf ef ekki á verr að fara.

SVFR greindi frá því að félagið hefði ákveðið að sumarið 2018 yrði öllum laxi sleppt á svæðum félagsins í ánni, Bildsfelli, Alviðru og Þrastarlundi. Fyrir all mörgum misserum hafði leigutaki Ásgarðs, Lax-á, sett samskonar reglur fyrir svæðið. Þá eru aðeins eftir Torfastaðir og Syðri Brú og er það hald VoV að V-S sé stundað á síðarnefnda svæðinu, en okkur er ekki kunnugt um Torfastaði.

Kristján Benediktsson sölustjóri hjá SVFR ritar á vef félagsins að undanfarin tvö ár hafi verið erfið í Soginu og því þyrfti að grípa til aðgerða. Nefndi hann ýmsa þætti sem gætu spilað inn í jafn krappa niðursveiflu og raun ber vitni, ekki hvað síst netaveiði í Ölfusá. Í skýrslu árnefnar fyrir Sogið er þess getið að á síðasta sumri hafi veiðst 64 laxar í Bíldsfelli, en meðalveiði á svæðinu árin 2011-2015 hafi verið 242 laxar. Og að 2010 hafi svæðið gefið 480 laxa. Um þverbak keyrir er birtar eru tölur úr Alviðru og Þrastarlundi. Hið gamalfræga svæði Alviðru var með 2 laxa skráða og Þrastarlundur ekki einn einasta lax. Fyrrum var Alviðra eitt albesta svæði Sogsins. Þá vitum við að veiði var undir væntingum í Ásgarði þó að komið hafi skot og skot.

Sem fyrr segir hefur Lax-á viðhaft V-S í Ásgarði í nokkur sumur og Kristján Ben hjá SVFR bætir við að setja slíkar reglur í Bíldfelli, Alviðru og Þrastarlundi sé „aðeins fyrsta skrefið“ í viðleytni til að koma Soginu aftur á lappirnar.

Við þetta má bæta, að líklega veiddust hvergi í íslenskri á fleiri bleiklaxar/hnúðlaxar heldur en í Soginu á liðinni vertíð. Munu hafa verið á annan tuginn. Mikill fengur að þeim, eða hitt þó heldur.