Við höfum verið að skrifa um minna þekkt veiðisvæði sem við höfum kynnt okkur og flest komið vel út. Ein slík á er Fossá í Þjórsárdal, við heimsóttum hana ekki að vísu s.l. sumar, en gerðum það sumarið áður og ræddum um ána við leigutaka hennar Guðmund Atla Ásgeirsson.

Háifoss.
Það er mikið sjónarspil að veiða neðan við Háafoss.

Fossá er all nokkuð vatnsfall og fellur af öræfum í Þjórsá og eru ármótin þar sem Þjórsá kemur útúr virkjunargöngum. Áin er miklu frægari fyrir fossa sína, Háafoss og Hjálparfoss heldur en laxastofninn. En sannast sagna þá gengur talsvert af laxi í ána, en kemst ekki langt, því aðein sum tveimur kílómetrum frá upptökunum stoppar Hjálparfoss laxgöngu. Ofan við Hjálparfoss eru all nokkrir kílómetrar upp í Háafoss sem er einn hæsti og magnaðsti foss landsins. Á þeirri leið er víða talsvert af silungi, bæði urriða og bleikju, meira þó af urriða. Það er mikið ævintýri að eyða degi í að ganga um það svæði, m.a. í fosshylinn undir Háafossi og segir Guðmundur þá sem gera aldrei gleyma því.

Fossá, Hjálparfoss
Þarna sést veiðisvæðið neðan við Hjálparfoss einstaklega vel.
Hjálparfoss, Fossá
Veitt neðan við Hjálparfoss.

Þó að laxgengi hluti Fossár sé stuttur þá eru veiðistaðir víða og Guðmundur segir við jaðra að áin sé óslitinn veiðistaður. Frægasti staðurinn og jafn framt sé efsti er auðvitað hylurinn og breiðan neðan við Hjálparfoss. Hægt er að veiða svæðið frá hvorum bakkanum sem er, en flestum þykir betra að vera á austurbakkanum, þ.e. andspænis túristabakkanum, fossinn er jú mikið tekinn túristastaður og verða menn að bíta á jaxlinn yfir trufluninni. „Jájá, ég veit af þessu og hef leyst þetta þannig að byrja í fosshylnum að morgni og þegar ferðamönnunum fer að fjölga, þá hreinlega fara bara annað og koma svo ekki aftur fyrr en um kvöldið. Ég hef lagt þetta til við viðskiptavini mína og ekki fengið mikið af kvörtunum. Svo er þarna hvort eð er lang best að veiða þegar haustar og þá hefur bæði fækkað í túristahópnum auk þess sem að fáir eru á ferli þegar birtu tekur að bregða. Þá er hins vegar mjög vænlegt að vera á vettvangi því þá fer hann að taka,“ sagði Guðmundur Atli.

Fossá.
Stórir laxar eru tíðir í Fossá.

Miðað við veiðisæld Þjórsár þá hefur farið furðu hljótt um hliðarár hennar sem að taka við mest af laxinum í hrygninguna. Þjórsá hefur alltaf verið mikið verstöð og hefur séð markaðnum fyrir villtum laxi í kjötbúðunum síðan að netin voru keypt upp úr Hvítá í Borgarfirði hér um árið. Í fersku minni er útkoman úr stangaveiðitilrauninni í Urriðafossi s.l. sumar þegar á áttunda hundrað laxar veiddust þó að svæðið sé víða erfitt og skilyrði ekki alltaf frábær. Helstu árnar eru Kálfá, Fossá og Sandá og þær eru kannski ekki frægar laxveiðiár vegna þess að þær hafa sameiginlegt sérkenni, þ.e.a.s. laxinn hefur ríka tilhneigingu til að dvelja í jökulvatninu vel inn á haustið. Ganga síðan í bergvötnin. Það getur verið fyrr eða seinna um haustið, allt eftir árferðinu. Allar fyllast þessar ár af laxi á haustin.

Fossá.
Annað tröll úr Fossá.

„Fyrir vikið er best að veiða þarna síðsumars og á haustin,“ segir Guðmundur Atli og heldur áfram að segja frá veiðistöðum. „Neðan við Hjálparfoss má segja að sé samfelldur veiðistaður frá djúpa pottinum neðan við fossinn og niður á brot. Einna heitast er frá því þar sem lítill lækur kemur útí að austanverðu og niður fyrir steina sem þar eru úti. Þarna er yfirleitt gott hlutfall af stórlaxi og síðasta sumar þreytti ég einn drjúga stund með tvíhendu og sterkum tólum í góðar tuttugu mínútur áður en hann slapp. Allan þann tíma bara lá hann óhagganlegur. Sýndi sig aldrei. Ég geri ráð fyrir að það hafi verulega vænn lax.

Neðan við fossbreiðuna kemur kafli þar sem við höfum rekið í fiska hér og þar. Þetta svæði er gengið að alla jafna og því sjálfsagt að kasta á alla liklega sem ólíklega staði. Það má aka langleiðina niður að vatnamótum eftir slóða á vesturbakkanum og þegar komið er niður að raflínu sem liggur yfir ána er góður veiðistaður. Þar er stórgrýti í botni efst í hylnum og þar við og niður fyrir liggur laxinn. Maður stendur dálítið hátt við veiðarnar þannig að auðvelt er að fæla laxinn í björtu og stilltu veðri, en ég leysi það með því að vera ofarlega og kasta niður fyrir mig. Þegar horft er upp eftir ánni frá þessum stað er langur fallegur bakki svona 2-300 metrum ofar. Þetta er hörfku veiðistaður og stundum jafnvel betri en fosshylurinn. Þessa staði má veiða frá hvorum bakkanum sem er,“ segir okkar maður.

Og þá eru það skilin við Þjórsá, oft eru slíkir staðir magnaðir. Hvað segir Guðmundur Atli um ármótin? „Já, ég hef nú fengið þar fisk af og til og heyrt af því að menn hafi gert þar fína veiði. En þau eru nokkuð mishitt og kannski hafa þau stundum verið ofnotuð. Aftur á móti eru þar vænir urriðar líka, ég hef fengið upp í 9 punda slíka í ármótunum. Það var magnaður fiskur.“

Fossá.
Vænn urriði af silungasvæði Fossár.
Fossá.
Veitt á silungasvæði Fossár.

Það eru tvær stangir í Fossá neðan við Hjálparfoss og tvær þar fyrir ofan í silungi. Það er ekki veiðihús við ána og segir Guðmundur unnið að því að leysa það mál. Hins vegar sé áin þannig eining að hún fer betur sem dagstúr eða hluti af fjölbreyttari pakka þar sem gist er annars staðar.

Veiðiþjófnaður hefur nokkuð loðað við Fossá. Raunar fremur grófur veiðiþjófnaður að því leyti að þeir sem það hafa stundað hafa ekki farið í felur með gjörðir sínar. Raunar gengið svo langt að vera merktir vinnustað sínum og ekið til ósómans á bifreiðum merktum fyrirtækinu. Fyrirtækið er Landsvirkjun sem hefur fjölmennt starfslið á þessum slóðum vegna virkjana í Þjórsá. Guðmundur Atli segir það óþolandi að selja veiðileyfi í á og heyra svo af því að viðskiptavinir lendi í því að verið sé að „spúna“ bestu staðina. Á síðasta sumri tókst í fyrsta skipti að hafa hendur í hári veiðiþjófs og segir Guðmundur Atli að gæsla verði aukin og að fylgt verði eftir með lögreglukærum þar sem viðkomandi geta átt von á umtalsverðum sektargreiðslum. Þá segir Guðmundur að fá svör hafi borist frá vinnuveitandanum, en málinu verið fylgt eftir og komið á góðan stað fyrir komandi vertíð.