Það er alltaf gaman þegar nýjar flugur eru kynntar, þeim kastað fyrir bráðina og virka. Það eru margir fluguhnýtarar hér á landi, einn þeirra er Sigurður Árni Sigurðsson myndlistamaður og veiðileiðsögumaður í Vatnsdalsá.

Sigurður Árni hefur nýlega hannað og gert opinberar tvær flugur, gulan Pillnikk og bláan Purrk. Nöfnin skírskota í eina af frægari íslensku rokkhljómsveitunum forðum daga, Purrk Pillnikk. Sigurður Árni er augljóslega einn af aðdáendum hljómsveitarinnar, en samt var nafngiftin frekar tilviljanakennd. „Eitt leiðir af öðru,“ segir Sigurður Árni í samtali við Veiðislóð, þegar hann segir frá flugunum blár Purrkur og gulur Pillnikk.

Gulur Purrkur. Mynd Heimir Óskarsson.

„Gula flugan kom fyrst og ef hún líkist annarri flugu á einhvern hátt, sem stundum vill verða, þá minnir hún á Arndilly Fancy sem ég er mjög hrifinn af og virkar vel í Vatnsdalnum. Gular flugur hafa reynst vel í Vatnsdalnum, en ég vildi gera öðru vísi flugu en þó á einhvern hátt klassíska og nota páfuglsfjaðrir í vænginn. Páfuglsfjaðrir hafa alltaf heillað mig í flugum, ekki síst eftir að ég veiddi minn stærsta urriða á gömlu góðu Alexöndru. Frábær fluga sem fáir nota nú orðið. Það var í Skjálftavatni, skemmtileg taka og ég var lengi að ná fisknum á land sem reyndist vera 84 sentimetra urriði.  Það eru ekki allir hrifnir af páfuglsfjöðrum í flugum eins og í Alexöndru, en það má nefna að t.d. Sun Ray Shadow er með fanir úr páfuglsfjöður.

Blár Pilnikk. Mynd Heimir Óskarsson.

Þegar sú gula var klár fannst mér ómögulegt annað en hún fengi tvíbura í bláum lit, þ.e.a.s. búkliturinn væri annar en flugan að öðru leyti hin sama. Og ef um tvíbura er að ræða þá er mjög freistandi að skýra þær nöfnum sem eru óskiljanleg nema þau standi saman. Það voru nokkur nöfn sem komu til greina: blár Baldur og gulur Konni, Gilbert og Sullivan, Svalur og Valur og Póstur og sími. Þegar nafnið Purrkur Pillnikk kom upp var ekki aftur snúið, líklega vegna þess að þær eru með pönkaralegan hanakamb. Það gefur auka spennu ef önnur flugan er búinn að gefa lax og maður skráir hana í veiðibók. Þá verður maður að veiða á hina til að geta skráð líka, annars vantar „pöns-line“ í brandarann. Það voru veiðifélagar mínir Einar Falur og Þorsteinn J. sem tilkeyrðu flugurnar með góðum árangri í Kjarrá síðast liðið vor. Það komu nokkrir laxar á þessar flugur í Vatnsdalnum í sumar og þær reyndust ágætlega í fleiri ám, má þar nefna Laxá á Ásum, Flekkudalsá, Laxá í Þingeyjarsýslu og Húseyjarkvísl.

Sigurður Árni Sigurðsson, Pétur Pétursson
Komið að löndun tuttugu pundara, Sigurður Árni á stönginni, Pétur Pétursson á háfnum. Mydnn er af FB síðu Sigurðar Árna.
Eftirminnilegur hængur, 100 cm úr Vatnsdalsá í fyrra, að vísu ekki á Purrk eða Pilnikk…..

Ef myndir Heimis Óskarssonar af flugunum eru skoðaðar, þá sést að „pönkaralegi hanakamburinn“ er úr Peacock. Sigurður Árni segir: „Ég gef mig ekki út fyrir að vera snjall fluguhnýtari, en ég er alveg slarkfær. Ég hnýti nokkuð út frá gömlum klassískum vængflugum sem eru með miklu skrauti og verða eins og regnbogi þegar þær blotna. Sjálfsagt hnýti ég og veiði meira út frá fagurfræðinni heldur en öðru. Í haustveiðinni í Vatnsdalsá byrjaði ég með Silver Doctor nr 12. Það er ekki fyrsta flugan sem kemur upp í hugann í haustveiði en ég kýs að veiða með fallegum flugum. Þetta var 13. september, frekar kalt í veðri en hún gaf mér 84 cm lax. Maður má ekki vanmeta laxinn, hann getur verið fagurkeri líka og setur svoleiðis hluti fyrir sig. En úr því að ég er farinn að tala um haustveiðina í Vatnsdalnum þá verð ég að nefna síðasta laxinn sem ég fékk í Gilárós. Þetta var rétt fyrir hádegi á síðustu vakt, félagi minn var búinn að veiða hylinn og ég ákvað að ná mér í bleikju á breiðunni neðst í hylnum. Ég grennti tauminn niður í sex pund og setti Mýslu undir, fluguna sem Gylfi Kristjánsson hannaði og hefur reynst með ólíkindum vel í bleikjuveiði. Ég setti strax í bleikju sem ég missti, kastaði aftur og fékk þá þunga töku. Ég fann strax að þetta var lax en það var ekki fyrr en fiskurinn velti sér að ég sá hvað hann var stór. Eftir það sagði félagi minn að taugarnar í mér hefðu verið mun strekktari en flugulínan. En okkur tókst að landa laxinum og þetta reyndist 88 cm hrygna í fallegum haustlitum.“

Það eru fleiri flugur í sigtinu hjá Sigurði Árna. Þannig vill til að gítarleikari hljómsveitarinnar Pearl Jam, Stone Gossard, kom til veiða í Vatnsdalsá síðasta sumar og var Sigurður Árni leiðsögumaður hans í nokkra daga. Þegar Gossard landaði einum af sínum löxum á fluguna Blár Purrkur fékk hann alla söguna um tilurð nafnsins. Þá kom á daginn að hann var vel að sér um íslenska poppheiminn og hafði hlustað á Sykurmolana og Einar Örn söngvara Purrk Pillnikks. „Það varð úr að við ákváðum að hanna fluguna Pearl Jam sem að Gossard gæti fengið í hendurnar og notað þegar hann kemur til Íslands næsta sumar. Pearl Jam er frábært nafn á flugu og mætti segja að sé samstarfsverkefni okkar leiðsögumannana við Vatnsdalsá. Ég held að Gústi (Ágúst Sigurðsson) hafi prufukeyrt prótótýpu með góðum árangri á nýliðnu hausti. Það verður gaman að fylgjast með hvernig Pearl Jam vegnar, ekki síður en Purrk og Pillnikk“