Grænavatn, Veiðivötn, Bryndís Magnúsdóttir
Axel heitir þessi kappi og veiddi hann stærsta urriðann í Veiðivötnum 2017, 11,5 punda ferlíki eins og myndin sýnir. Fiskinn dró hann úr Grænavatni. Myndina tók Bryndís Magnúsdóttir

Netaveiðitímanum í Veiðivötnum lauk þann 13.9 s.l. en nokkuð var veitt á stöng samhliða netunum. Stangaveiðitímanum lauk 23.ágúst og veiddust 20315 fiskar yfir vertíðina, 8482 urriðar og 11833 bleikjur.

Örn Óskarsson heldur úti frábærum vef fyrir hönd Veiðivatna og þar má sjá mikla sundurliðun, hvað veiddist, hvar og hvað voru þeir stærstu stórir. Þar kemur m.a. fram að stærsti fiskurinn var 11,5 punda urriði úr Grænavatni, vatni sem skilað hefur mörgum stórum síðustu árin og hefur lengi núna verið með mestu meðalþyngdina. Eins var það núna, 4,15 pund.

Þá er magnað að skoða hvað þeir stærstu voru stórir og þá má glöggt sjá hversu víða menn geta átt von á tröllum og hvað það veiðist í raun mikið af boltafiski í vötnunum. Fyrir utan Grænavatn var t.d. 10,2 punda úr Stóra Skálavatni, 9,6 punda úr Litlasjó og Litla Skálavatni, 9,3 pund úr Ónýtavatni, 9,2 pund úr Hraunvötnum og Litla Breiðavatni og 8 pund úr Ónefndavatni og Litla Fossvatni.

Snjóölduvatn gaf mest að þessu sinni 6825 fiska. Vatnið er að stærstum hluta setið bleikju, en er það bleikjuvatn í klasanum sem hefur hvað sterkasta urriðastofninn sér við hlið, þannig skiptist aflinn í 6510 bleikjur og 315 urriða. Yfirleitt er Litlisjór með mestu veiðina en er í öðru sæti nú með 4936 stykki, allt urriða. Örn tekur þó fram að vatnið hafi verið mikið að sækja í sig veðrið síðustu daganna, þannig hefðu veiðst 438 urriðar fjóra síðustu daga stangaveiðitímans. Annars má sjá þetta allt og miklu meira á veidivotn.is