Gunnar Bender ritstjóri Sportveiðiblaðsins með fallegan stórlax.

Það er stundum sagt að allt sé breytingum háð, en sumt virðist þó alls ekki breytast, eins og t.d. að Gunnar Bender er alltaf handan við hornið með nýtt Sportveiðiblað. Trúi menn því eða ekki, en nú í vor kemur út 35 ára afmælisblað Sportveiðiblaðsins

VoV sló á til Gunnars og hann sagði: „Við erum þessa dagana að vinna á fullu í afmælisblaðinu okkar sem mun koma út fyrir páska, risablað vel yfir 100 síður. Það mun verða eitthvað efni úr gömlum blöðum, en blöðin eru orðinn næstum 80 á þessum 35 árum. Blaðið verður í stærra upplagi og margt fróðlegt efni eins og viðtöl og allavega tvær laxveiðiár skoðaðar frá toppi til táar.“

Og Bender rifjar upp fyrsta blaðið, árið 1981:  „Það var 1981 sem fyrsta blaðið kom út með viðtali við Gulla Bergmann meðal annars  og þá var Þröstur Elliðason og Steingrímur Steingrímsson með blaðið með mér. Margir góðir hafa komið af blaðinu eins og Valdimar Sverrisson, Snæbjörn heitinn Kristjánsson og Jóhann Páll Kristbjörnsson. Efni frá lesendum hefur verið mikið og gott í gegnum árið. Ingimundur Bergsson (Veiðikortið) er kominn í blaðið núna og brýtur það um og skrifar töluvert. Baráttan heldur áfram,  þrjú blöð núna á hverju ári og afmælisblaðið verður veglegt.“