Ásgeir Arnar Ásgeirsson með ríflega 80 cm nýgenginn sjóbirting sem hann veiddi á svæðinu í fyrra.

Við höldum yfirreiðinni áfram. Afar góðri vertíð lauk í Heiðarvatni og Vatnsá ofan Mýrdals þann 10.október. Mikil og góð veiði var í vatninu og laxveiðin í Vatnsá betri en síðustu árin. Mikið einnig af sjóbirtingi bæði í vatninu og ánni og mjög vænir dólgar innanum.

Boltalax úr Heiðarvatni s.l. haust. Myndina fengum við af FB síðu Heiðarvatns.

Ásgeir Arnar Ásmundsson, umsjónarmaður svæðisins heldur úti FB síðu fyrir svæðið undir nafni vatnsins, en hann sagði okkur að silungsveiðin um vorið hefði verið afar góð og júlíveiðin, þegar laxavertíðin hefst, hefði verið sú besta sem menn myndu eftir. Laxveiði hefst þó ekki fyrr en um eða eftir miðjan þann mánuð. Lax gengur seint í ána miðað við aðrar laxveiðiár. Þegar leið á sumar dalaði laxveiðin nokkuð en góð sjóbirtingsveiði og hörkuveiði í vatninu héldu mönnum við efnið. Þegar haustaði tók svo laxveiðin við sér aftur, sjóbirtingsveiðin alltaf jöfn í kjölfarinu en þó dró aðeins úr veiði á staðbundnum silungi, helst þó bleikjunni, en staðbundinn urriði var að veiðast allt til loka.

Alls veiddust 198 laxar, flestir í ánni að sjálfsögðu en óvenjumargir samt í vatninu og þótti Ásgeiri það áhugavert. Sagði hann að væntanlegur teljari myndi gefa svör um flakk fiska á svæðinu, t.d. hefði komið fyrir að menn hefðu komið að aðalveiðistaðnum Frúarhyl og vart séð líf, en svo hafi hylurinn verið kvikur af fiski næsta dag. Vel mætti tengja slíkar vangaveltur við óvenju mikla laxveiði í vatninu um haustið.

Það veiðast mjög vænar bleikjur í Heiðarvatni, þessar eru 45 og 47 cm, en þær gerast líka stærri….og minni. Mynd -gg.

Meiri laxveiði hefur ekki verið síðan 2016 þegar 201 lax veiddist og 2013 voru þeir 228 talsins. Síðast liðið sumar voru 320 silungar skráðir, þar inni í eru sjóbirtingarnir, en búast má við því að all mikið af silungi úr vatninu hafi ekki ratað í bók.  En Ásgeir bætti við:

„Sumarið gaf mikið af stórum og flottum fiski. Á annan tug sjóbirtinga voru yfir 80 cm, stærsti var 87 cm, og veiddust þeir bæði í ánni og vatninu. Þá sáust sjóbirtingar yfir 100 cm á sveimi en ekki náðust þeir á land. Eftir því sem leið á tímabilið var veiðin að vaxa í vatninu og telja kunnugir að það sé óvenju gott ástand á vatninu. Mikið líf oft og fiskurinn stór. Að öllum líkindum er því að þakka að hóflegar veiðar hafa verið stundaðar lengi, meira og minna öllu sleppt og öllu yfir 55cm er gefið líf. Óvenju mikill lax gekk upp í vatnið þetta árið en síðustu daga tímabilsins veiddust 18 laxar í vatninu og var t.d. einn veiðimaður með 7 laxa og 11 sjóbirtinga einn laugardaginn í byrjun október, þar af var einn 97cm lax. Líklega verður vorveiðin hreint ótrúleg næsta ár en það ræðst þó vissulega af árferðinu.“